Stígamót bjóða körlum upp á ítarlegt námskeið, Bandamannanámskeið, um kynferðisofbeldi gegn konum, kynsegin einstaklingum og öðrum jaðarsettum hópum. Námskeiðið er hugsað fyrir karla sem hafa áhuga á að taka þátt í umræðunni gegn kynbundnu ofbeldi og skapa rými þar sem karlar fá tækifæri til að ræða þennan málaflokk með öðrum körlum sem hafa áhuga á að taka þátt í baráttunni. Fyrr á árinu bauð BSRB í samstarfi við Stígamót körlum í hópi stjórnarmanna og starfsfólks aðildarfélag bandalagsins að sitja þriggja daga Bandanámskeið.
Nýverið var opnuð heimasíða, www.bandamenn.is, til að vekja athygli á námskeiðinu og málefninu með áherslu á hvernig hægt sé að virkja fleiri karla í baráttunni. Á heimasíðunni er hægt að nálgast upplýsingar um fyrirkomulag og efnistök námskeiðsins. Auk þess verður hægt að skoða margskonar fræðslu- og kynningarefni, skrá sig á þau námskeið sem eru í boði og senda inn beiðni fyrir sérsniðin námskeið. Einnig hefur verið stofnuð Instagramsíða, www.instagram.com/bandamenn/, með ýmisskonar fræðsluefni og upplýsingum um námskeiðin.
„Við fögnum því að efnt skuli til fræðslu fyrir karla en jafnréttismál eru eitt af leiðarljósum í allri starfsemi BSRB. Bandalagið leggur áherslu á að uppræta kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Það þarf þekkingu, vilja og aðgerðir til að ná fram breytingum á þessu sviði. Í þeirri baráttu er fræðsla til karla gríðarlega mikilvæg“, segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.