Útrýmum fátækt

Forystufólk heildarsamtaka launafólks og formaður Öryrkjabandalags Íslands skrifuðu grein um áherslurnar í baráttunni gegn fátækt.

Tæplega 10 prósent Íslendinga eiga það á hættu að búa við fátækt. Hlutfallið er enn hærra þegar kemur að börnum. Okkur ber siðferðileg skylda til að breyta þessu. Í gegnum tíðina hefur umræðu um fátækt á Íslandi verið mætt með svörum um að tekjujöfnuður hér á landi sé meiri en í samanburðarlöndum og að stéttskipting og fátækt séu þar af leiðandi minni. Það breytir ekki þeirri staðreynd að rúmlega tíunda hvert barn á Íslandi á það á hættu að búa við fátækt. Það getum við ekki sætt okkur við.

Öryrkjar eru sá hópur sem er líklegastur til að búa við fjárhagsþrengingar og fátækt. Börn þeirra og einstæðra foreldra eru í langmestri fátæktarhættu. Nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum djúpa kreppu af völdum COVID-19 faraldursins er hætta á að þessi hópur muni stækka. Hjálparstofnanir merkja nú þegar stóraukna spurn eftir aðstoð og segja flesta í þeim hópi vera öryrkja og langveikar einstæðar mæður.

Fátækt er ekki óumflýjanlegur veruleiki. Stjórnvöld hafa úrslitaáhrif á það hvort fólk búi við fátækt, með öllum þeim alvarlegu andlegu og líkamlegu afleiðingum sem henni fylgja. Það er pólitísk ákvörðun að gera ekki nóg. Afleiðing langvarandi aðgerðaleysis er að ójöfnuður mun aukast og fátækum fjölga.

Dæmi um slíka pólitíska ákvörðun er að láta framfærsluviðmið öryrkja ekki fylgja launaþróun í landinu. Ef framfærsluviðmið almannatrygginga hefðu fylgt launaþróun frá árinu 2009 væru þau tæplega 50 þúsund krónum hærri fyrir öryrkja sem býr með öðrum fullorðnum en rúmlega 35 þúsund krónum hærri fyrir öryrkja sem býr einn. Önnur slík pólitísk ákvörðun er að skerða örorkulífeyri eins og raun ber vitni hjá öryrkjum sem hafa vinnufærni og vilja starfa á vinnumarkaði. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað með sama hætti og laun frá 2009 væri það nærri tvöfalt hærra en það er í dag eða 208.000 kr á mánuði.

Einhverjir kunna að telja að þessi umræða sé ekki tímabær nú þegar við stöndum frammi fyrir gríðarmiklum vanda vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Við teljum, þvert á móti, að nú sé einmitt rétti tíminn til að styðja betur við fólk í viðkvæmri stöðu. Þá er ljóst að eitt mikilvægasta skrefið fyrir efnahagslífið nú er að auka kaupgetu fólks svo stuðla megi að aukinni neyslu innanlands. Örorkulífeyrisþegar eru margir með langvarandi lágar tekjur og eiga fyrir vikið hvorki sparifé eða eignir og hafa takmarkaða lánamöguleika. Einu bjargráð þeirra eru að leita til sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð eða sækja aðstoð frá hjálparstofnunum.

Reynslan frá síðastu kreppu sýnir að fjárhagsáhyggjur og slæm fjárhagsstaða hafa verulega neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks. Afleiðingar þess eru lengi að koma fram en eru langvarandi og einn helsti orsakavaldur kulnunar og örmögnunar.

Tíminn til aðgerða er núna. Bregðumst við með því að hækka örorkulífeyri og tryggjum að hann fylgi launaþróun. Drögum úr skerðingum hjá öryrkjum sem hafa vinnufærni og vilja leggja sitt af mörkum. Ábyrgð á fátækt bera ekki þau sem búa við hana heldur samfélagið allt. Við verðum að sjá til þess að enginn sé skilinn eftir.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Drífa Snædal, forseti ASÍ
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?