Ný skýrsla verkefnishóps um fagháskólanám var kynnt í gær. Þar er lagt til að farið verði af stað með þróunarverkefni strax á næsta ári. Formaður BSRB skrifaði í gær undir viljayfirlýsingu um þátttöku bandalagsins í verkefninu.
„Þetta er mjög spennandi verkefni og ljóst að það hefur verið beðið eftir því í talsverðan tíma,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, þegar viljayfirlýsingin hafði verið undirrituð.
Á fundinum undirrituðu Elín Björg ásamt Illuga Gunnarssyni menntarmálaráðherra, Hannesi G. Sigurðssyni framkvæmdastjóra SA, og Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, viljayfirlýsingu um stofnun þróunarsjóðs um þróunarverkefni sem nýtast sem fyrirmyndir um skipulag, nám og gæðamat í fagháskólanámi. Sjóðnum er ætlað að styrkja þróun og framboð á námsleiðum, kostnað við rekstur verkefna, kynningu og innleiðingu.
Viljayfirlýsingin er eftirfarandi:
Í samræmi við tillögur verkefnishóps um fagháskólanám lýsa mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og BSRB yfir vilja sínum til þess að stofna þróunarsjóð um þróunarverkefni sem nýtast sem fyrirmyndir um skipulag, nám og gæðamat í fagháskólanámi.
Sjóðurinn styrkir þróun og framboð á námsleiðum, kostnað við rekstur verkefna, kynningu og innleiðingu.
SA, ASÍ og BSRB lýsa sameiginlega yfir vilja til að til að starfsmenntasjóðir á forræði aðila eða aðildarsamtaka þeirra setji í sjóðinn 50 milljónir króna við stofnun hans hinn 1. janúar næstkomandi.
Mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, lýsir yfir vilja til að við gerð fjárlaga árið 2017 verði veitt 100 milljón króna framlagi í sjóðinn.
Sjóðinn skal nýta vorið 2017 og skólaárið 2017-18.
Í stjórn sjóðsins skulu sitja fimm stjórnarmenn, tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra og þrír tilnefndir af öðrum stofnaðilum.
Tillögur nefndarinnar
Í verkefnishópinum, sem skipaður ar í mars síðastliðnum, sátu fulltrúi BSRB ásamt fulltrúum menntamálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Landssambandi íslenskra stúdenta, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Samstarfsnefndar háskólastigsins, Samtaka atvinnulífsins og Skólameistarafélagi Íslands.
Megintillögur verkefnishópsins eru eftirfarandi, eins og lesa má nánar um í skýrslu hópsins:
A Þróunarverkefni
Farið verði af stað með fagháskólanám sem þróunarverkefni árið 2017 og að minnsta kosti fimm mismunandi námsleiðir verði skilgreindar til þróunar og innleiðingar. Þeim er ætlað að verða fyrirmynd almenns fagháskólanáms varðandi form náms og innihald.
B Samstarfsráð um fagháskólanám
Ráðherra skipar formlegan samráðsvettvang sem heitir samstarfsráð um fagháskólanám þeirra aðila sem nú skipa verkefnishóp um fagháskólanám auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar formann.
Samstarfsráðið hafi eftirfarandi verksvið:
- Að skilgreina frekar markmið með þróunarverkefninu og einstökum þáttum þess.
- Að leggja fram tillögu um kostnað og fjármögnun fagháskólanáms til framtíðar fyrir maí 2018.
- Að leggja fram tillögu um hvaða nám verði fagháskólanám og geti farið af stað árið 2017 og 2018 á grundvelli greiningar og forgangsröðunar atvinnulífsins í samráði við háskóla, framhaldsskóla og aðrar menntaveitur.
- Að vinna að skilgreiningu á raunfærnimati á háskólastigi og gera tillögu að innleiðingu þess.
Samstarfsráðið kýs úr sínum hópi fimm manna hóp sem auk formanns samstarfsráðsins mynda verkefnisstjórn, sem ber ábyrgð á framkvæmd þróunarverkefnisins gagnvart samstarfsráðinu og ráðherra. Þar skal aðild stéttarfélaga, atvinnurekenda, framhaldsskóla, háskóla og ráðuneytis tryggð.
C Þróunarsjóður
Ríkið og atvinnulífið (SA, ASÍ, BSRB) stofni sameiginlegan þróunarsjóð til að fjármagna þróunarverkefnið fyrir vorönn 2017 og skólaárið 2017-2018. Um sé að ræða einskiptisaðgerð en framtíðarfjármögnun fagháskólanáms fari eftir tillögum samstarfsráðsins um framtíðarskipan námsins.