Atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun starfsmanna fyrirtækja í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) er nú lokið. Verkfallsboðunin var samþykkt með 65% atkvæða en kosningaþátttaka var 61,9%.
Samþykki verkfallsboðunarinnar tekur til félagsmanna er starfa hjá eftirtöldum stofnunum SFV vegna: Áss, Eirar, Grundar, HNLFÍ, Hrafnistu Hafnarfirði, Hrafnistu Kópavogi, Hrafnistu Reykjavík, Krabbameinsfélagsins, Markar, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilisins, Skjóls, Skógarbæjar, Sunnuhlíðar og öðrum stofnunum innan SFV þar sem félagsmenn SFR starfa.
Fjölmennur baráttufundur félagsmanna tveggja aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFR stéttarfélags og Sjúkraliðafélags Íslands, var haldinn fyrr í mánuðnum þar sem kjör og réttindi félagsmanna til umræðu og staðan í kjaraviðræðum félaganna við SFV.
Á fundinum var talsverður hiti í fólki og fram kom að flestir væru orðnir afar langeygðir eftir kjarabótum fyrir þennan hóp sem telur um fimm hundruð manns. Þar var einróma samþykkt að félögin efndu til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun enda höfðu viðsemjendur ekki sýnt neinn vilja til þess að koma til móts við kröfu félaganna.
Nú er atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun lokið með samþykki 65% greiddra atkvæða.