Þó það hafi ekki verið bjart yfir í upphafi árs, þegar fjölmörg aðildarfélög BSRB voru byrjuð að undirbúa það sem hefðu verið umfangsmestu verkfallsaðgerðir opinberra starfsmanna í áratugi, grunaði engan hversu erfitt árið 2020 yrði íslensku samfélagi og heimsbyggðinni allri. Okkur tókst að afstýra verkföllum á síðustu stundu en í blekið var ekki þornað á kjarasamningunum þegar heimsfaraldur kórónaveirunnar skall á með hörmulegum afleiðingum.
Í upphafi ársins 2020 höfðu kjarasamningar þorra aðildarfélaga BSRB verið lausir frá byrjun apríl og fátt sem benti til þess að viðsemjendur væru að ná saman. Flóknasta úrlausnarefnið var án efa krafa okkar um styttingu vinnuvikunnar. Við stóðum fyrir stórum baráttufundi ásamt félögum okkar í Bandalagi háskólamanna og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í Háskólabíói þar sem við kröfðumst þess í sameiningu að viðsemjendur okkar gengju strax til kjarasamninga. Fundurinn varð upptakturinn að því að aðildarfélög BSRB byrjuðu undirbúning verkfallsaðgerða.
Þolinmæði félagsmanna okkar var löngu þrotin og yfirgnæfandi meirihluti þeirra var fylgjandi verkfallsaðgerðum í atkvæðagreiðslum aðildarfélaga. Aðgerðirnar sem boðaðar voru hefðu orðið hörðustu verkfallsaðgerðir opinberra starfsmanna í áratugi og hefðu umturnað daglegu lífi flestra landsmanna.
Samstaðan hefur í gegnum tíðina skilað opinberum starfsmönnum flestum þeim kjarabótum sem þeir hafa áunnið sér og þannig var það einnig í þetta skiptið. Kjaraviðræður fóru loksins að ganga þegar verkfall vofði yfir og á endanum skrifuðu flest aðildarfélög BSRB undir kjarasamning aðeins nokkrum klukkustundum áður en boðaðar verkfallsaðgerðir áttu að hefjast, að morgni 9. mars. Það var ekki seinna vænna. Um þetta sama leyti skall heimsfaraldur kórónaveiru á landinu af fullum þunga og allt okkar daglega líf breyttist á svo gott sem einni nóttu.
Þökk sé sterkri samstöðu náðum við í sameiningu að stytta vinnuvikuna, sem hefur verið eitt helsta baráttumál BSRB og aðildarfélaga bandalagsins síðustu ár. Hjá dagvinnufólki var samið um að stytta megi í 36 stundir á viku í kjölfar umbótasamtals á hverjum vinnustað. Langflestir vinnustaðir hjá ríkinu og Reykjavíkurborg hafa nú þegar ákveðið að vinnuvikan verði 36 stundir og því verður spennandi að sjá heildarniðurstöðuna hjá öllum vinnustöðum sveitarfélaga og ríkis á nýju ári.
Á vaktavinnustöðunum verður lágmarksstyttingin úr 40 stunda vinnuviku í 36 og hjá þeim sem eru á erfiðustu vöktunum styttist vinnuvikan allt niður í 32 stundir. Það er ein vakt á viku fyrir þá sem fá mestu styttinguna. Útfærslan á vaktavinnustöðunum er flóknari en á þeim stöðum þar sem aðeins er unnið í dagvinnu og því á henni að vera lokið 1. maí næstkomandi.
Það er gríðarlegt fagnaðarefni að styttingin, sem við höfum barist fyrir árum saman, sé loksins í höfn. Við gætum þess þó að fagna ekki of snemma. Þetta er lærdómsferli og enn einhverjir sem eiga eftir að tileinka sér þá þekkingu sem þarf til að klára þetta stóra umbótaverkefni. Það verður því eitt af stóru verkefnunum á komandi ári að fylgja því eftir af fullum þunga að starfsfólk almannaþjónustunnar fái sína styttingu.
Í framlínunni
Orð ársins 2020 í Danmörku er samfundssind, sem þýðir í raun að setja hagsmuni samfélagsins framar sínum eigin. Þar líkt og hér eru skilaboðin þau sömu, að við þurfum að standa saman með því að halda fjarlægð. Í hefðbundnu árferði felst hlutverk starfsfólks í almannaþjónustu í því að setja fólk í fyrsta sæti í sínum störfum en á tímum heimsfaraldurs felur það í sér stórauknar byrðar. Mörg hafa einangrað sig verulega og einu ferðirnar eru til og frá vinnu til að fyrirbyggja smit meðal þeirra viðkvæmu hópa sem þau sinna í störfum sínum. Í vinnunni hafa þau svo mætt gríðarlegu álagi sem flestum þótti nóg um fyrir. Myndir af heilbrigðisstarfsfólki og starfsfólki í umönnun í óþægilegum hlífðarfatnaði að sinna fólki í sinni viðkvæmustu stöðu mun seint líða úr minni okkar. En það eru mun fleiri hópar sem hafa sinnt afar krefjandi störfum í framlínu baráttunnar. Það á við um sjúkraflutningamenn, lögreglumenn, starfsfólk skóla, ræstingarfólk og öll þau störf sem krefjast nálægðar við fólk.
Samkvæmt könnun Maskínu fyrir BSRB í fyrstu bylgju faraldursins gat um helmingur ekki unnið í fjarvinnu. Tekjulægra fólk átti enn fremur síður kost á að vinna fjarvinnu en tekjuhærri. Á meðan tekjuhærra fólk hafði möguleika á að vinna heimanfrá þurftu tekjulægri hópar að mæta á vinnustaðinn og gera allt sem í þeirra valdi stóð til að hindra útbreiðslu veirunnar. Við vitum að hluti þeirra smituðaðist af veirunni í störfum sínum. Þá var skóla- og frístundastarf barna takmarkað hluta af árinu og það er helst tekjulægra fólk sem naut ekki þess sveigjanleika að geta sinnt börnunum sínum þar sem störf þeirra krefjast þess að þau mæti á vinnustaðinn. Flest lönd hafa greitt framlínufólki álagsgreiðslur vegna faraldursins en hér fékk eingöngu heilbrigðisstarfsfólk greiðslur og flestir sammála um að þær hafi ekki verið í neinu samræmi við álagið. Þær greiðslur komu í kjölfar fyrstu bylgju faraldurs en nú er þeirri þriðju nýlokið. Síðasta bylgja fól hins vegar í sér mun meiri áskorun á flest framlínufólk en þær fyrri.
Stjórnvöld virðast ekki átta sig á þeim langtímaafleiðingum sem álagið getur valdið hjá starfsfólki almannaþjónustunnar. Fólk getur ekki hlaupið endalaust og álagið getur haft veruleg áhrif á lífsgæði og heilsu með aukinni hættu á kulnun í starfi og ýmsum álagstengdum veikindum. Meira að segja Bandaríkin hafa tryggt opinberum starfsmönnum bótagreiðslur ef þeir smitast við störf sín en hér hefur slíkum kröfum verið neitað ítrekað. Þögn stjórnvalda í garð þeirra sem enn á ný hlupu hraðar til að bjarga okkur hinum er ærandi.
Það er hins vegar ástæða til bjartsýni enda er verðmætamat samfélagsins hægt og rólega að breytast. Mun fleiri en áður sjá hversu ómissandi, lífsnauðsynleg og mikilvægt starfsfólk almannaþjónustunnar er í framlínunni. Faraldurinn hefur þannig varpað ljósi á mikilvægi góðrar opinberrar þjónustu og virði opinberra starfsmanna. Stjórnvöld ættu því að leggja metnað sinn í að treysta stoðir hennar og þakka starfsfólki sínu í verki fyrir þeirra mikilvæga framlag í baráttunni.
Það eru fáir sem vilja í dag verja málstað þeirra sem ekki vilja deila verðmætunum jafnt og setja ekki samfélagið ofar eigin hagsmunum. Að því leyti stöndum við sem þjóð á tímamótum og kjörnir fulltrúar verða að bregðast við breyttu gildismati. BSRB mun á nýju ári berjast áfram fyrir álagsgreiðslum til framlínufólks sem og að þeim verði tryggð hvíld og stuðningur í samræmi við þrekvirkið sem þessi hópur hefur unnið og verðmætið sem í því felst fyrir okkur öll.
Jöfnuður og réttlæti
Á þessum fordæmalausu tímum hefur samstaða, samvinna og samfélagslegar lausnir sannað gildi sitt í baráttu við faraldurinn. Við þurfum að tryggja að þessi sömu gildi verði leiðarljósið á leiðinni út úr kófinu þegar kemur að efnahagsáfallinu.
Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki vegna hruns ferðaþjónustunnar og tengdra greina. Ólíkt bankakreppunni er það einkum fólk í lægst launuðu störfunum sem nú hefur misst vinnuna sína. Verkefnið framundan er að skapa góð störf sem ganga ekki á náttúruauðlindirnar okkar með sama hætti og öll atvinnuppbygging hefur byggt á fram að þessu. Á meðan beðið er eftir bóluefni og að fleiri störf skapist er því mikilvægasta verkefnið að tryggja afkomu fólks í fjölbreyttum aðstæðum þeirra. Þar má til dæmis nefna fólk í atvinnuleit , öryrkja, eldri borgara og þau sem ekki ná endum saman þrátt fyrir að vera í fullu starfi.
Frá upphafi faraldursins hefur BSRB barist fyrir því að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja afkomu heimilanna og að þau vinni gegn auknum ójöfnuði. Við höfum viljað ganga lengra en gert hefur verið hingað til fyrir þá sem búa við þrengstan kost. Þá gerum við þá kröfu að gripið verði til nýrra verkfæra sem endurspegla kröfur samfélagsins um aukna fjárfestingu í umönnunargeiranum og stuðla þannig að aukinni velferð. Við höfnum því að eingöngu séu sköpuð störf fyrir karla sem viðbragð við kreppunni þegar meirihluti þeirra sem hafa misst vinnuna eru konur.
Líkt og verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir hafa stjórnvöld ákveðið að við munum vaxa út úr kreppunni í stað þess að grípa til harkalegs niðurskurðar líkt og í bankakreppunni. Það er hins vegar ljóst að framundan bíður það stóra verkefni að jafna byrðarnar. Það er eina leiðin út úr kófinu og til að ráða megi fram úr skuldastöðu ríkis og sveitarfélaga til lengri tíma.
Það styttist vonandi í að bóluefni við kórónaveirunni komi hingað til lands og við getum vonast til þess að það séu bjartari tímar framundan. Áföll á borð við kreppuna eru oft öflugur hvati fyrir breytingar. Þegar land fer að rísa á ný höfum við tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Ef við ætlum okkur að komast út úr kófinu þurfum við að standa saman að því að byggja upp réttlátt samfélag. Samfélag sem einkennist af jöfnuði og jafnrétti.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB