BSRB tekur þátt í spennandi tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar sem hófst nú um mánaðarmótin. Það hefur lengi verið á stefnuskrá BSRB að stytta vinnuvikuna til að koma megi á fjölskylduvænna samfélagi en ekki síður vegna þess að rannsóknir hafa sýnt fram á að starfsánægja og afköst aukast hlutfallslega með styttri vinnutíma.
Tilraunaverkefnið nær til tveggja starfsstöðva Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Barnaverndar Reykjavíkur, og verður vinnudagur styttur án launaskerðingar í allt að tólf mánuði. Markmið verkefnisins er að kanna áhrif styttingu vinnuvikunnar á vellíðan og starfsanda starfsmanna og þjónustu starfsstaðanna. Fulltrúi BSRB, Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri bandalagsins, situr í stýrihópi verkefnisins ásamt fulltrúum Reykjavíkurborgar og bindur hópurinn vonir við að hægt verði að taka stærri skref þegar tilraunaverkefninu lýkur svo koma megi á fjölskylduvænna samfélagi og tryggja aukin jöfnuð og lífsgæði.
Fulltrúar stýrihópsins fjalla um tilraunaverkefnið í grein í Fréttablaðinu í dag sem lesa má hér.