Þrír leikskólar í eigu Félagsstofnunar stúdenta (FS) ætla að stytta vinnutíma starfsmanna í 35 stundir á viku án launaskerðingar frá næstu mánaðarmótum. Markmiðið með breytingunum er að stuðla að auknu jafnvægi milli atvinnu og einkalífs starfsfólks og auka þannig lífsgæði þeirra.
Alls starfa 55 á leikskólunum Mánagarði, Sólgarði og Leikgarði. Þar eru pláss fyrir 183 börn á aldrinum sex mánaða til fimm ára. Unnið er að því að stækka Mánagarð og verður plássum við það fjölgað um 60.
„Við hjá leikskólum FS leitum stöðugt leiða til að efla ánægju og kjör okkar fólks,“ er haft eftir Sigríði Stephensen, leikskólafulltrúa og leikskólastjóra á Sólgarði, í tilkynningu sem fjallað er um í fréttum Vísis og MBL.
Það er sérstaklega ánægjulegt að félög á borð við Félagsstofnun stúdenta ákveði af eigin frumkvæði að stytta vinnutíma starfsmanna. Stytting vinnuvikunnar hefur verið eitt af baráttumálum BSRB lengi og hefur færst sífellt ofar í forgangsröðina á síðustu árum.
Aukin starfsánægja og minni veikindi
Þær niðurstöður sem hafa þegar komið út úr tilraunaverkefni sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir, í samvinnu við BSRB, lofa góðu. Þær sýna að starfsánægja eykst og skammtímaveikindi dragast saman án þess að styttingin bitni á framleiðni. Sambærilegt tilraunaverkefni sem ríkið hefur staðið fyrir, einnig í samvinnu við BSRB, er styttra á veg komið og því engar niðurstöður komnar úr því enn.
BSRB hvetur stjórnendur á vinnustöðum til þess að skoða gaumgæfilega kostina við að stytta vinnutíma starfsfólks og gera tilraunir með styttingu. Á leikskólum Félagsstofnunar stúdenta eiga breytingarnar að taka gildi 1. febrúar og verða þær endurskoðaðar 1. ágúst. Vonandi verður reynslan af þeim góð og ástæða til að festa þær í sessi næsta haust.
Nánar er fjallað um áherslu BSRB á styttingu vinnuvikunnar hér.