Starfsfólk almannaþjónustunnar er í lykilhlutverki þegar kemur að því að halda samfélaginu gangandi enda sýnir ný könnun sem unnin var fyrir BSRB að almannaþjónustan er mikilvægust fyrir hagsæld þjóðarinnar að mati landsmanna.
Mikilvægi opinberra starfa hefur aldrei verið meira. Það hefur komið berlega í ljós í heimsfaraldrinum sem hefur gengið yfir landið í bylgjum síðasta eitt og hálfa árið hversu mikilvægt það er að starfsfólk almannaþjónustunnar sinni sínum störfum. Það að einn starfsmaður sinni hópi aldraðra gerir aðstandendum þeirra kleift að sinna sínum störfum, sem aftur hefur keðjuverkandi áhrif út í allt samfélagið.
Almenningur er vel meðvitaður um mikilvægi almannaþjónustunnar. Þannig sýnir nýleg könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir BSRB og Rúnar Vilhjálmsson prófessor að í huga almennings er það almannaþjónustan sem er mikilvægust fyrir hagsæld þjóðarinnar. Flestir nefna heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið, en á hæla þess eru það samgöngur og löggæsla og dómstólar. Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi er einnig ofarlega á blaði, sem og félagsþjónustan. Það þarf að leita niður í sjöunda sætið á listanum til að finna sjávarútveg, verslun er í því áttunda og ferðaþjónustan í ellefta sæti yfir þau atriði sem skipta máli fyrir hagsæld þjóðarinnar. Nákvæm hlutföll má sjá í meðfylgjandi mynd.
Vilja heilbrigðiskerfi í opinberum rekstri
Landsmenn eru almennt hlynntir því að hið opinbera reki almannaþjónustu. Í könnuninni var spurt sérstaklega um heilbrigðisþjónustu og sögðu um 81 prósent að hið opinbera ætti fyrst og fremst að reka sjúkrahús, um 68 prósent voru þeirrar skoðunar þegar kom að heilsugæslustöðvum og um 58 prósent þegar spurt var um hjúkrunarheimili.
Meirihluti landsmanna er einnig hlynntur því að það sé fyrst og fremst hið opinbera sem reki menntakerfið. Alls vilja um sex af tíu að hið opinbera reki leikskóla, um 75 prósent vilja að grunnskólar séu reknir af hinu opinbera og 67 prósent eru þeirrar skoðunar þegar kemur að framhaldsskólum. Meira að segja þegar kemur að háskólum er meirihlutinn, um 52 prósent, þeirrar skoðunar að starfsemin eigi fyrst og fremst að vera starfrækt af hinu opinbera.
Þessi dæmi sýna það traust sem almenningur ber til almannaþjónustunnar og hversu mikilvæg þessi störf eru.
Könnunin var gerð af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Rúnar Vilhjálmsson prófessor. Kostnaður við gerð könnunarinnar var greiddur af BSRB. Könnunin var gerð í mars 2021. Alls svöruðu 842 meðlimir í netpanel Félagsvísindastofnunar könnuninni, um 43 prósent þeirra sem fengu könnunina. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá og er tryggt að dreifing aldurs, kyns, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem gerist meðal landsmanna.