Þarf að hækka atvinnuleysisbætur og örorkubætur

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir var í Silfrinu í Sjónvarpinu á sunnudag. (Mynd/RÚV)

Hækka þarf atvinnuleysisbætur til að tryggja afkomu fólks sem misst hefur vinnuna vegna faraldurs kórónaveirunnar og hækka bætur almannatrygginga til öryrkja, sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, í viðtali í Silfrinu í Sjónvarpinu í gær.

„Þegar við hjá BSRB veittum umsögn um fjárlögin sem nú eru í gildi vöruðum við við því að það væri verið að hækka atvinnuleysisbætur og lítið, sem og bætur almannatrygginga. Þær voru ekki hækkaðar til samræmis við kjarasamningsbundnar hækkanir,“ sagði Sigríður. „Svo gerist það sem enginn vissi þá að það sannarlega reynir á þetta kerfi sem aldrei fyrr.“

Bæði grunn atvinnuleysisbætur og tekjutengdar bætur eru of lágar. „Okkar verkefni núna í þessum ömurlegu aðstæðum er að tryggja afkomu fólks þannig að fólk komist í gegnum þetta með eins litlum skakkaföllum og mögulegt er,“ sagði Sigríður. Hún benti á að grunnbæturnar séu 289 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt, 45 þúsund krónum undir lágmarkslaunum

Eins og Sigríður kom inn á í viðtalinu hefur BSRB einnig kallað eftir því að örorkubætur verði hækkaðar. „Öryrkjar eru hópur sem þar stendur sérstaklega höllum fæti og býr við gallað kerfi. Þarna eru hópar sem eru í miklu meiri hættu en aðrir að lenda í fátækt,“ sagði Sigríður.

Hægt er að horfa á viðtalið og lesa meira á vef RÚV.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?