Sýnum samstöðuna í kröfugöngu á 1. maí

Launafólk sýnir samstöðu með því að taka þátt í kröfugöngu og baráttufundum á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.

Með samstöðunni hefur íslenskt launafólk unnið mikla sigra á undanförnum árum og áratugum. Sú samstaða hefur ekki orðið til úr engu. Við sýnum samtakamáttinn með því að fjölmenna í kröfugöngu á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins á 1. maí.

BSRB hvetur alla félagsmenn til að fjölmenna í kröfugöngu og baráttufundi í sínu bæjarfélagi. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, mun halda ræðu á baráttufundi í Reykjanesbæ og munu félagar í aðildarfélögum bandalagsins sýna styrk sinn víða um land.

Yfirskrift hátíðarhaldanna í Reykjavík er „Sterkari saman“. Dagskráin í Reykjavík er eftirfarandi:

Safnast verður saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00. Kröfuganga hefst klukkan 13:30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni.

Útifundur á Ingólfstorgi verður settur klukkan 14:10. Þar munu Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, halda erindi. Þá munu Síðan skein sól og Heimilistónar flytja tónlistaratriði. Öll dagskráin verður túlkuð á táknmáli. Kolbrún Völkudóttir túlkar söng á táknmáli. Fundarstjóri verður Þórarinn Eyfjörð.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?