Stytting vinnuvikunnar ein leið til að mæta foreldrum vegna vetrarfría

Formaður BSRB var í viðtali á Bylgjunni fyrir skemmstu og fjallaði meðal annars um styttingu vinnuvikunnar. Umræðuefni viðtalsins voru þær kvartanir og athugasemdir sem hafa verið lagðar fram af foreldrum í kjölfar vetrarfrís í skólum. Vetrarfrí og fjöldi skipulagsdaga valdi foreldrum vandkvæðum í tengslum við fjarveru frá störfum sem þeir eru að taka út í fríi og sumir taka af sumarfríinu sínu.

Elín Björg sagði það mikilvægt að reynt sé að koma betur til móts við foreldra vegna frídaga í skólum og leikskólum. Sorglegt sé að foreldrar þurfi að nýta stóran hluta af sumarfrísdögum sínum til að mæta þessum lokunum í skóla og leikskóla. Ein leið til að mæta foreldrum í þeim efnum er stytting vinnuvikunnar.

„BSRB hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á það að unnið verði að stytta vinnuvikuna, ekki síður til að koma á fjölskylduvænna samfélagi. Við sjáum það vel geta gerst að fólk geti valið hvernig það stytti vinnuvikuna sína, hvort fólk geti valið að geyma hluta af vinnustyttingunni til þess að nýta þegar það eru vetrarfrí í skólum, því að fólk sem er með börn í skólum og leikskólum er oft í miklum vandræðum þegar vetrarfríin eru,“ sagði formaður BSRB.

Krafa BSRB um að stytta vinnuvikuna felur í sér styttingu vinnuvikunnar í áföngum en lokamarkmiðið er 36 stunda vinnuvika. Viðtalið má nálgast hér.



Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?