Stöðugleikaregla verður ekki innleidd án sjálfbærni ríkisfjármála

BSRB hefur skilað inn umsögn í samráðsgátt um áform fjármála- og efnahagsráðherra um innleiðingu stöðuleikareglu í lög um opinber fjármál. Reglunni er, eins og nafnið gefur til kynna, ætlað að stuðla betur að stöðugleika en BSRB bendir á að til að svo geti orðið þurfi rekstur ríkissjóðs að vera sjálfbær þegar reglan er innleidd.

Ríkissjóður rekinn með viðvarandi halla
Í umsögn BSRB er bent á að rekstur ríkissjóðs hafi ekki verið sjálfbær um árabil og að halli hafi verið á undirliggjandi afkomu ríkissjóðs 20 af síðustu 26 árum. Vísað er til greininga fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fjármálaráðs, sem hafa ítrekað bent á að tekjuhliðin standi ekki undir útgjöldum ríkisins. Mikilvægasta verkefnið í ríkisfjármálum sé því að afla frekari tekna. BSRB bendir jafnframt á að meginástæðu skuldasöfnunar ríkissjóðs megi rekja til ófjármagnaðra skattalækkana undanfarinna ára.

Áhyggjur af breyttu hlutverki fjármálaráðs
BSRB lýsir einnig áhyggjum af því að áform um að fela fjármálaráði nýtt hlutverk í greiningu á framleiðni og samkeppnishæfni kunni að draga úr sjálfstæði og trúverðugleika ráðsins. Samkvæmt breytingunum gæti fjármála- og efnahagsráðuneytið haft áhrif á efnistök fjármálaráðs, sem BSRB telur að muni veikja aðhald þess gagnvart stjórnvöldum. Auk þess varar BSRB við því að stefnumótun í opinberum rekstri verði falin ráðinu, sem óvíst er hvort hafi á að skipa fólki með næga þekkingu á innviðum þjónustunnar og mannauðsmálum. BSRB krefst þess að eiga skipulagt samráð við fjármálaráð ef áform ráðherra ná fram að ganga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?