Starfsmannafélag Kópavogs hélt upp á 65 ára afmæli með pompi og prakt í Salnum Kópavogi 6. desember.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB hélt tölu, Jóhann Alfreð grínisti uppistand og þær Bjartey og Gígja í hljómsveitinni Ylja spiluðu fyrir gesti.
BSRB óskar SfK aftur hjartanlega til hamingju með þessi tímamót og þakkar fyrir samstarfið öll þessi ár.
Ræða formanns BSRB:
Kæru gestir,
Kæru félagar í Starfsmannafélagi Kópavogs,
Í dag komum við saman til að fagna þessum merku tímamótum; Þeim 65 árum sem Starfsmannafélag Kópavogs hefur barist fyrir bættum kjörum síns félagsfólks – ykkur sem starfið víðsvegar um bæjarfélagið og haldið bæjarsamfélaginu gangandi með kröftugum hætti.
Það mætti segja að félagið sé nú komið á besta aldur - enda búið að starfa síðan Kópavogskirkja var í byggingu og takast á við afar krefjandi verkefni í öll þessi ár í ört stækkandi bæjarfélagi.
Félagið var stofnað skömmu eftir að Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi sín, í desember 1958. Bæði félagsfólk og félagið sjálft hafa tekið þó nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Upphaflega voru það 18 framsýnir einstaklingar sem stofnuðu félagið en þar voru karlar í meirihluta en í dag eru félagar um 1400 og mikill meirihluti þeirra eru konur. Á fyrstu árum félagsins voru lögreglumenn fjölmennasti hópurinn en næst á eftir voru strætisvagnabílstjórar og svo starfsfólk á bæjarskrifstofum.
Í dag sinnir félagsfólk SfK ómissandi störfum sem snerta líf fólks með fjölbreyttum hætti á hverjum degi m.a. í leikskólum, grunnskólum, á frístundaheimilum bæjarins, við ræstingar, þjónustu við fatlað fólk, sundlaugum og íþróttamannvirkjum, bæjarskrifstofum og svo framvegis en langflestar þessara stofnana eru yngri en afmælisbarnið Starfsmannafélag Kópavogs.
Hversu ómissandi starfsfólkið er, kom bersýnilega í ljós í verkföllunum í vor - þegar Kópavogsbær neitaði í þvermóðsku sinni - að greiða starfsfólki bæjarins sömu laun fyrir sömu störf. Starfsmannafélag Kópavogs lét auðvitað ekki bjóða sér slíkt óréttlæti. Og stjórnendum bæjarins varð fljótt ljóst að félagsfólk SfK væru engin lömb að leika sér við.
Það hefði kannski ekki átt að koma fólki á óvart hversu mikill töggur var í starfsfólki bæjarins - enda er Kópavogur víst vagga pönksins. En það var hreint út sagt ótrúlegt að fylgjast með ykkur - mæta dag eftir dag - tugum, jafnvel hundruðum saman í baráttukaffi og fylkja svo liði í verkfallsvörslu. Og finna hvernig foreldrar og almenningur allur í Kópavogi stóð með ykkur.
Samstaðan og krafturinn sem birtist meðal félagsfólks Starfsmannafélags Kópavogs skipti gríðarlega miklu máli í vor. Félagið tók afgerandi forystu og var þannig öðrum aðildarfélögum BSRB mikilvæg hvatning og fyrirmynd. Án samstöðunnar hér í Kópavogi og út um allt land hefðum við aldrei unnið þennan slag við Samband íslenskra sveitarfélaga, með tilheyrandi launahækkunum og kjarabótum fyrir okkar félagsfólk. Í þessari baráttu stóð Marta formaður sig gríðarlega vel enda verkalýðsforingi par exelans sem nálgast stór sem smá verkefni af krafti, hlýju og ekki síst jákvæðni Það er ekki sjálfgefið að sýna slíka seiglu og hugrekki til að breyta samfélaginu til góðs - eins og þið gerðuð í vor og fulltrúar félagsins hafa gert í öll þessi ár.
Kæru félagar,
Þótt málefni líðandi stundar breytist með tíð og tíma og stjórnmálamenn komi og fari með sína stefnubæklinga - þá er kjarninn í starfi SfK nefnilega alltaf hinn sami; kjarabætur, framfarir og velferð starfsfólks Kópavogsbæjar sem tryggir velferð og vellíðan allra bæjarbúa. En á tímamótum sem þessum er framtíðinni oft velt fyrir sér einnig.
Nú er enn ein kjarasamningslotan framundan - og horft til samninga til lengri tíma í núverandi efnahagsástandi. Pönkið í Kópavogi mun koma sér vel í baráttunni framundan við að tryggja starfsfólki í almannaþjónustu um allt land réttlátar kjarabætur og stuðla að bættu velferðarsamfélagi fyrir allan almenning.
En svo ég komi nú með tillögur að minna alvarlegum framtíðarverkefnum félagsins þá sá ég í sögugrúski mínu að þegar Starfsmannafélag Kópavogs var á unglingsaldri var það skemmtanaglatt líkt og kröfur gera til ungra. Þá voru félagar um 60 talsins en fyrir utan aðalfundi og félagsfundi voru haldnar árshátíðir og skemmtifundur á haustin. Þar fyrir utan var farið í tveggja daga ferðalög sem voru styrkt af bæjarsjóði.
Nú veit ég ekki með ykkur en ég tel mikilvægt að halda í barnið í sér – og tel því ekki úr vegi að félagið taki upp á að skemmta sér meira og fái jafnvel til liðs við sig eitthvað af því frábæra tónlistarfólki sem Kópavogur hefur alið af sér. Mér skilst að Hafdís Huld, Emilíana Torrini, Herra Hnetusmjör og Agnes í Sykur séu öll úr Kópavoginum svo dæmi séu nefnd. Megi skemmtifundirnir ykkar vera sem flestir á komandi árum – því endurnæringin og styrkurinn felst í samverunni, samstöðunni og gleðinni.
Kæru félagar - til hamingju með stórafmælið!