Starfsfólk félaga innan ASÍ, BHM, BSRB og KÍ fræddist um stöðu trans fólks á vinnumarkaði

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks

Fræðslufundur um stöðu trans fólks á vinnumarkaði var í dag haldinn fyrir starfsfólk og stjórnarfólk innan ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.  Fundurinn var liður í því að styrkja stoðir réttindabaráttunnar með fræðslu fólks innan verkalýðshreifingarinnar um málefnið. Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í Bandaríkjunum þar sem stjórnvöld gera nú atlögu að réttindum og öryggi trans fólks er mikilvægt að verkalýðshreyfingin berjist stöðugt gegn því að sama þróun eigi sér stað hér á landi.

 

Niðurstöður rannsóknar kynntar

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks, leiddi fræðsluna og kynnti helstu niðurstöður nýlegrar rannsóknar NIKK, rannsóknarstofnunar Norðurlandaráðs í kynjamálum. Rannsóknin byggir á gögnum og rýnihópum með þátttöku trans-aktívista, fræðifólks og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar.

 

Margar áskoranir fyrir trans fólk á vinnumarkaði

Ugla benti á að niðurstöður rannsóknarinnar sýna að margar áskoranir eru fyrir trans fólk á vinnumarkaði. Trans fólk er til dæmis mun líklegra til að vera atvinnulaust og rúmlega þriðjungur verður fyrir mismunum af vinnufélögum. Auk þess er transfólk útsettara en aðrir samfélgshópar fyrir að verða fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Algengt er að trans fólk sé ekki ráðið vegna þess að þau eru trans, þurfa að yfirgefa vinnustað vegna fordóma eða fá ekki framgang í starfi.

Trans fólk upplifir fordóma í kjölfar þess að koma út úr skápnum á vinnustaðnum. Það leiðir til þess að trans fólk felur kynvitund sína í mun hærri mæli en fólk felur kynhneigð sína, af ótta við fordóma og áreiti. Á Íslandi felur allt að 50% hinsegin fólks hinseginleika sinn á vinnustaðnum.

 

Hvernig er hægt að bæta stöðuna?

Til að bæta stöðuna er mikilvægt að vinnustaðir marki sér skýra stefnu til að taka á mismunun og fordómum og skapi jákvæða vinnustaðamenningu. Reglubundin fræðsla eykur þekkingu sem skilar sér í betri framkomu gagnvart trans fólki. Ugla benti jafnframt á að samherjar gegna lykilhlutverki á vinnustað og mælti með að við getum öll brugðist við ef við verðum vitni af fordómafullri umræðu á vinnustaðnum okkar.

Fundurinn í dag var mikilvægt skref til að efla þekkingu og skilning á stöðu trans fólks innan verkalýðshreyfingarinnar og vekja athygli á þeirri ábyrgð sem stéttarfélög og heildarsamtök bera í þessum málum.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?