Fjölmörg aðildarfélög BSRB eiga enn eftir að klára nýja kjarasamninga og eru þó nokkrir fundir fyrirhugaðir milli samningsaðila í dag og næstu daga. Nú þegar hafa Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins og Póstmannafélag Íslands samþykkt nýja kjarasamninga og þá hefur Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum samþykkt nýjan samning fyrir þá starfsmenn sem starfa hjá Orkubúi Vestfjarða. Einnig hefur Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar undirritað kjarasamning við Orkuveituna fyrir starfsmenn St.Rv sem starfa þar. Kjarasamningurinn verður kynntur á næstu dögum og greiddur um hann atkvæði.
Félag starfsmanna Stjórnarráðsins gekk frá kjarasamningi á föstudaginn og er hann núna í kynningu. Samningurinn fer síðan í atkvæðagreiðslu og er reiknað með að niðurstöður hennar liggi fyrir eftir rúma viku.
Einnig hefur samninganefnd samflots bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB hefur undirritað kjarasamning við ríkið vegna starfsmanna hjá heilbrigðisstofnunum. Verður hann kynntur á næstu dögum og borin undir atkvæði. Niðurstaða kosningar ætti að liggja fyrir í næstu viku.
Kosningu um nýjan kjarasamning SLFÍ lýkur svo kl. 14 í dag og ætti niðurstaða atkvæðagreiðslunnar að vera ljós seinnipart dags. Þá eru SFR félagar að kjósa um sinn samning og lýkur kosningu á hádegi næstkomandi mánudag, 16. nóvember. Kosning um nýjan kjarasamning Landssambands lögreglumanna hefst í dag og lýkur um miðja næstu viku.
Bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB hafa undanfarnar vikur setið á fundum með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga en ekki hefur verið lokið við gerð samninga. Þá hafa samninganefndir Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar átt reglulega fundi undanfarið með fulltrúum Borgarinnar. Áfram verður fundað í þessari viku. Stærstur hluti félagsmanna umræddra félaga fær laun sín frá sveitarfélögunum þannig að bæjarstarfsmennirnir eru stærsti hópurinn innan BSRB sem enn er með lausa samninga.
Af öðrum félögum er það að frétta að Félag íslenskra flugumferðarstjóra er með gildan samning sem rennur út snemma á næsta ári. Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað á milli Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia enn. Þá er Tollvarðafélag Íslands með lausan kjarasamning og hefur hann verið laus frá því 1. maí á þessu ári.
Félag íslenskra flugmálastarfsmanna gerði á síðasta ári kjarasamning til ársins 2017 við Isavia ásamt félagsmönnum Landssambands slökkviliðsmanna og SFR sem starfa á flugvöllum landsins. Í haust var gerð breyting á bókun með þeim kjarasamningi í ljós þess að launahækkanir annarra félaga reyndust hærri en gert var ráð fyrir. Hefur launatafla fyrir árin 2015 og 2016 því verið uppfærð til samræmis við þróun annarra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á þessu ári.