Heimsfaraldurinn sem við erum nú loks farin að sjá fyrir endann á hefur verið gríðarleg þolraun fyrir íslenska heilbrigðiskerfið og það ótrúlega öfluga fólk sem þar starfar. Þrátt fyrir að þessi mikilvæga þjónusta hafi verið fjársvelt og starfsfólkið búið við óhóflegt álag áður en faraldurinn skall á stóðst hún prófið og skilaði landsmönnum í gegnum faraldurinn betur en flestir þorðu að vona.
Nú þegar við erum loksins farin að leyfa okkur að vona að það versta sé að baki hefst kunnuglegur söngur þar sem kallað er eftir aukinni einkavæðingu í kerfinu þannig að verkefni sem eiga best heima hjá opinberu heilbrigðiskerfi verði færð til einkaaðila.
Ákallið einkennist af pólitískum slagorðum sem eiga uppruna sinn í 40 ára gömlum kreddum Reagan og Thatcher um að hið opinbera leysi ekki vandamál heldur séu vandamálið sjálft. Í gegnum árin hefur þekkingunni að sjálfsögðu fleygt fram og áhrif slíkrar stefnumótunar margrannsökuð. Niðurstaðan er skýr, félagsleg kerfi líkt og í heilbrigðisþjónustu tryggja best aðgengi að þjónustu, eru best til þess fallin að bæta lýðheilsu og fela í sér lægstan kostnað stjórnvalda og einstaklinga.
Efnahagsáföll af þeirri stærðargráðu sem við stöndum nú frammi fyrir leiða yfirleitt til aukins ójöfnuðar. Þekkt er að í kjölfar slíkra áfalla sameinast þjóðir um þá afdráttarlausu kröfu að gripið verði til aðgerða til að stuðla að jöfnuði. Í slíkri uppbyggingarvinnu hefur verið komið á fót mörgum af þeim félagslegu kerfum sem við treystum á í dag. Í kjölfar síðustu kreppu gerðu stjórnvöld hins vegar þau afdrifaríku mistök að skera gríðarlega niður í opinberri þjónustu þvert á vilja þjóðarinnar. Nú er því tímabært að hlýða kalli landsmanna með því að styrkja opinbera heilbrigðisþjónustu og auka þannig jöfnuð og velsæld sem aftur mun tryggja verðmætasköpun til framtíðar.
Engin lausn að einkavæða
Talsmenn einkavæðingarinnar benda gjarnan á að opinbera heilbrigðiskerfið sé komið að þolmörkum á vissum sviðum. Ein birtingarmynd þess er óhófleg bið eftir aðgerðum sem bæta lífsgæði til muna en teljast ekki lífsnauðsynlegar. Þar er látið eins og að það að fela einkaaðilum verkefnin sé einhverskonar töfralausn. Hið rétta er að það er engin lausn að einkavæða þjónustuna og dreifa verkefnum milli læknastofa og sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja. Það eykur hins vegar líkurnar á ósamhæfðri og ósamfelldri þjónustu og torveldar eftirlit.
Vandamálið er ekki skortur á vilja innan opinbera heilbrigðiskerfisins til að minnka biðlistana og veita framúrskarandi þjónustu heldur viðvarandi niðurskurður og mannekla sem hefur einkennt kerfið undanfarin ár og áratugi. Vandamálið er ekki heldur að heilbrigðiskerfið geti ekki sinnt þeim verkefnum sem við viljum að sé sinnt. Vandinn er sá að við veitum ekki nægilegu fé til þess að sinna þessum verkefnum.
Nú þegar heimsfaraldurinn er á undanhaldi verðum við að grípa tækifærið, hugsa hlutina upp á nýtt og styrkja opinbera heilbrigðiskerfið. Við þurfum sannarlega að leggjast í átak í að ná niður biðlistum. En við verðum líka að huga að heildstæðri stefnumótun, umbótum, nýsköpun og þróun. Við þurfum einnig að leggja miklu meiri áherslu á forvarnir. Það kostar vissulega en það mun skila sér margfalt til baka.
Afstaða landsmanna skýr
Í heimsfaraldrinum sáum við vel hvernig heilbrigðiskerfi virka best. Það voru ekki kerfin með mestu einkavæðinguna. Þau lönd sem komu best út úr faraldrinum voru þau sem höfðu sterkt opinbert heilbrigðiskerfi. Þess vegna er það í besta falli broslegt að nú þegar heilbrigðiskerfið er að skila okkur nær klakklaust í gegnum faraldurinn ómi þær raddir hærra en nokkru sinni fyrr sem kalla eftir einkavæðingu.
Þó okkur sem viljum standa vörð um heilbrigðiskerfið þyki það broslegt að tala fyrir aukinni einkavæðingu á þessum tímapunkti er það auðvitað grafalvarlegt mál og í raun stórhættulegur málflutningur. Ef verkefni heilbrigðiskerfisins verða færð í enn frekara mæli en orðið er í hendur einkaaðila er engin leið að segja hvernig við förum út úr næsta heimsfaraldri, eða þeim þar næsta.
Sem betur fer lætur almenningur ekki blekkjast. BSRB hefur ásamt Rúnari Vilhjálmssyni prófessor staðið fyrir reglulegum rannsóknum þar sem afstaða almennings til heilbrigðiskerfisins er könnuð. Við kynntum nýjustu niðurstöður nú í lok maí. Þar kom fram eindreginn stuðningur almennings við að heilbrigðisþjónusta verði fyrst og fremst á hendi hins opinbera. Aðeins örlítið hlutfall þjóðarinnar vill fórna okkar frábæra heilbrigðiskerfi og treysta fyrst og fremst á einkarekstur.
Vitnað var í orð formanns Læknafélags Reykjavíkur í leiðara Morgunblaðsins í vikunni þar sem hann reyndi að túlka niðurstöður könnunarinnar með öðrum hætti. Leiðarahöfundur valdi að líta ekki til túlkunar Rúnars Vilhjálmssonar á niðurstöðunum, en hann er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og hefur unnið fjöldamargar rannsóknir á heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum og áratugum. En það er kannski ekki hentugt að treysta sérfræðingum þegar þeir segja ekki það sem við viljum heyra.
Könnunin sýndi einnig að afgerandi meirihluti landsmanna, nærri átta af hverjum tíu, vill að meira fé sé varið til heilbrigðismála. Eins og Rúnar benti á í erindi sínu á opnum fundi BSRB eru útgjöldin til heilbrigðismála hér á landi mun lægri en á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandi, skoðuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þessu þurfum við að breyta.
Almannahagsmunir ráði
BSRB hefur í gegnum tíðina staðið vörð um opinbert heilbrigðiskerfi. Það er ekki sérhagsmunabarátta eða „hluti af pólitískri baráttu sumra forystumanna stéttarfélaga“, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist telja. Þessi áhersla bandalagsins er þvert á móti afrakstur stefnumótunar félagsmanna á þingum BSRB sem kjörin forysta bandalagsins fylgir að sjálfsögðu eftir á opinberum vettvangi. Áherslan endurspeglar almannahagsmuni og stuðning við öflugt opinbert heilbrigðiskerfi en ekki fjárhagslega sérhagsmuni fárra.
Heilbrigðismálin eru í kastljósinu vegna heimsfaraldursins og það er ljóst að þau verða eitt af stóru kosningamálunum í haust. Almenningur vill standa vörð um heilbrigðiskerfið okkar og efla það enn frekar í stað þess leyfa þeim sem vilja veg einkareksturs sem mestan að hagnast á því að veita fólki þá grundvallarþjónustu að greina og meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.
Raunverulegur kjarni þessarar umræðu snýst um hvort við sem þjóð getum verið sammála um að hafa jöfnuð að leiðarljósi við uppbyggingu samfélagsins eftir heimsfaraldurinn. Málstaður þeirra sem ekki vilja deila verðmætunum jafnt og ekki vilja setja samfélagið ofar eigin hagsmunum á sér lítinn hljómgrunn meðal almennings. Kjörnir fulltrúar, frambjóðendur í þingkosningunum í haust og einstaka ritstjórar verða að bregðast við kalli tímans.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB