SLFÍ hafði betur gegn Akureyrarbæ

Félagsdómur í máli nr. 1/2015, Sjúkraliðafélagið gegn Akureyrarbæ. Sjúkraliðafélagið (SLFÍ) krafðist þess að viðurkennt yrði að starfandi sjúkraliðar á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð og á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri falli undir starfsheitið „Sjúkraliði B“ samkvæmt grein 1.3.1 í kjarasamningi aðila. Akureyrarbær krafðist sýknu.

Málavextir eru þeir að Akureyrarbær rekur Öldrunarheimili Akureyrar sem rekur tvö hjúkrunarheimili, Hlíð og Lögmannshlíð. Deilt var um röðun í launaflokka en við síðustu kjarasamningsgerð 2014 voru gerðar verulegar breytingar á skilgreiningu starfsheitanna sjúkraliða A og B. SLFÍ taldi að skýra bæri ákvæðin samkvæmt orðanna hljóðan og ljóst væri að félagsmenn þeirra sem vinna á umræddum heimilum falli undir skilgreiningu á sjúkraliða B og því bæri að greiða laun samkvæmt því. Akureyrarbær hafnaði því og sagði m.a. sameiginlegan skilning aðila kjarasamningsins hafa verið sá að eingöngu væri um ræða orðalagsbreytingar.

Niðurstaða Félagsdóms var að ljóst væri að þeir sjúkraliðar sem um ræðir í málinu vinni störf sem falla í flokk B samkvæmt skilgreiningu kjarasamningsákvæðis. Ekki hafi verið sýnt fram á að breytingar á kjarasamningi hafi ekki verið ætlað að hafa áhrif samkvæmt orðalagi sínu. Dómurinn áréttaði jafnframt að mikilvægt væri að þeir sem greiða atkvæði um kjarasamning geti treyst því að efni hans sé það sem ráðið verður af skýru orðalagi hans. Það byggi meðal annars á meginreglu sem leiðir af 10. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, um að kjarasamningar skuli vera skriflegir, en af því leiðir að greini aðila um efni kjarasamnings skuli hinn ritaði texti lagður til grundvallar.

Félagsdómur viðurkenndi því kröfu Sjúkraliðafélagsins og dæmdi Akureyrarbæ til að greiða SLFÍ málskostnað vegna reksturs málsins fyrir dómstólnum.

Nálgast má dóminn hér http://www.urskurdir.is/Felagsmala/Felagsdomur/nr/7577


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?