Skýrsla um endurmat á störfum kvenna gerð opinber

Skýrsla starfshópsins er nú í samráðsgátt stjórnvalda.

Lagt er til að aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti komi á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa og þrói samningaleið um jafnlaunakröfur til að leiðrétta muninn. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um endurmat á störfum kvenna sem lögð hefur verið lögð fram til opin samráðs í Samráðsgátt stjórnvalda.

Hópurinn var skipaður 1. desember 2020 í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga milli ríkis og sveitarfélaga og aðildarfélaga BSRB í mars 2020. Þar lýsti ríkisstjórnin því yfir að sett yrði af stað vinna við endurmat á störfum kvenna og starfshópi yrði falið að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Aðgerðirnar skyldu hafa að leiðarljósi að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtökum á vinnumarkaði.

Í skýrslunni kemur fram að dregið hafi úr launamun á undangengnum árum, meðal annars fyrir tilstuðlan aðgerða á borð við starfsmat hjá sveitarfélögunum og jafnlaunavottun. Þessi tæki duga hins vegar ekki til þess að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar í störf og atvinnugreinar sem skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar, líkt og launarannsókn Hagstofu Íslands sem birt var í dag staðfestir.

Í launarannsókn Hagstofunnar kemur fram að atvinnutekjur kvenna árið 2019 voru um 75 prósent af atvinnutekjum karla. Sé tekið tillit til vinnutíma eru konur með um 86 prósent af launum karla, en þessi munur er skilgreindur sem óleiðréttur launamunur.

Leiðréttur launamunur sýnir mun á atvinnutekjum kvenna og karla með tilliti til vinnutíma, menntunar, starfs og atvinnugreinar. Þá fá konur rúmlega 95 prósent af launum karla. Það eru samt margir annmarkar á þessum mælikvarða því ekki er tekið tilliti til persónubundinna eiginleika sem geta van- og ofmetið launamuninn, þá hækka konur síður í launum með aldri og starfsreynslu og að lokum fangar mælingin ekki ýmsa kynbundna mismunun á vinnumarkaði eins og möguleika á stjórnunarstöðum og þessháttar.

Tillögur að aðgerðum

Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra er rakið hvernig forsenda þess að unnt sé að leiðrétta þennan mun sé að hægt sé að meta heildstætt virði ólíkra starfa. Til þess að styrkja framkvæmd jafnlaunamarkmiðs jafnréttislaga eru lagðar fram eftirfarandi tillögur til aðgerða í skýrslunni:

Aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðild aðila vinnumarkaðarins fái eftirfarandi hlutverk:

  • Að koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa með það að markmiði að skapa verkfæri sem tekur yfir jafnvirðisnálgun laganna. Verkfærin styðji við þau tæki sem þegar eru í notkun.
  • Að þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins. Þar verði m.a. horft til þess hvaða áhrif breytingar á ráðningasamböndum og útvistun starfa hafa á launamun kynjanna.
  • Að stuðla að þekkingaruppbyggingu og vitundarvakningu.

Forsætisráðherra mun skipa aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði í samræmi við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020-2023 og verður honum falið að fylgja skýrslu starfshópsins eftir.

Hér má nálgast skýrsluna Verðmætamat kvennastarfa - Tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?