Sjúkraliðar boða verkfall utan Reykjavíkur

Sjúkraliðafélag Íslands boðar allsherjarverkfall sjúkraliða hjá sveitarfélögum landsins, öðrum en Reykjavík, frá 4. apríl, náist ekki samningar fyrir þann tíma.

Þetta þýðir að sjúkraliðar sem vinna við öldrunar- og hjúkrunarþjónustu sem sveitarfélögun reka, auk félagsþjónustu, munu fara í verkfall, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Stærstu stofnanirnar sem mögulegt verkfall myndi ná til eru Síða á Akureyri, Brákarhlíð í Borgarfirði, Höfði á Akranesi og Ísafold í Garðabæ.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að aðgerðir séu boðaðar fyrst og fremst vegna mikils dráttar sem orðið hafi á samningum.

„Samningar okkar voru lausir um leið og allra annarra,“ segir hún. „Allan þann tíma var mjög lengi verið að koma samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga að borðinu.“

Deilan er nú hjá ríkissáttasemjara. Á fundi í gærmorgun gerðu sjúkraliðar sveitarfélögunum móttilboð sem var hafnað, og viðræðum slitið. Boðað hefur verið til samningafundar strax eftir páska.



Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?