Samstarfsyfirlýsing hefur verið undirrituð milli velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, SA og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fræðslu og ráðgjöf við innleiðingu á jafnlaunastaðli: ÍST 85:2012.
Heildarsamtök launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda hafa tekið höndum saman og unnið að tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals í samræmi við ákvæði til bráðabirgða nr. IV í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008 og aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynjanna frá október 2013.
Markmið jafnlaunastaðalsins er að auka gegnsæi og gæði í launaákvörðunum og auðvelda atvinnurekendum að viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Grunforsenda staðalsins er að einstaklingar hjá sama atvinnurekenda njóti sambærilegra kjara og réttinda fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Staðallinn er byggður upp eins og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar og fyrirtæki og stofnanir sem vilja nýta hann þurfa að uppfylla kröfur staðalsins og hljóta sérstaka vottun geri þau það.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur leitt tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals hjá 11 stofnunum ríkisins, 2 sveitafélögum og 8 einkafyrirtækjum. Vonast er til að fyrstu stofnanirnar og fyrirtækin geti fengið úttekt og vottun á jafnlaunakerfi sínu á vormánuðum ársins 2015.
Frekari upplýsingar má nálgast á vef velferðarráðuneytisins.