Stjórnir Kjalar og Starfsmannafélags Skagafjarðar staðfestu formlega fyrir helgi samkomulag um sameiningu félaganna tveggja. Fram kemur í fréttatilkynningu frá stjórnum félaganna, sem send var fjölmiðlum í dag, að á næstu dögum verði samkomulagið kynnt félagsmönnum SFS og að því loknu verði það afgreitt á aðalfundi félagsins í febrúar. Sameiningin hefur verið kynnt á fundi trúnaðarmanna Kjalar og formlega verður sameining afgreidd með kjöri stjórnar á aðalfundi Kjalar í mars.
Í fréttatilkynningunni segja formenn félaganna, þau Árni Egilsson hjá Starfsmannafélagi Skagafjarðar og Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, að sameiningin sé jákvætt skref. Nýtt félag verður undir merkjum og nafni Kjalar og verður að lokinni sameining með rösklega 1000 félagsmenn. Þar með verður Kjölur meðal fimm stærstu félaganna innan BSRB.
Stækkun á 10 ára afmælinu
"Það má segja að hér séum við að stíga næsta skref í því verkefni sem við hófum fyrir 10 árum. Til verður enn stærri heild hér á Norðurlandi og slagkraftur félagsins fyrir hönd félagsmanna eykst," segir Arna Jakobína en allir sjóðir félaganna sameinast, þ.e. sjúkrasjóðir, starfsmennta- og orlofssjóðir. Fyrir átti Kjölur orlofshús á Eiðum, í Munaðarnesi, í Biskupstungum, Vaðlaborgum og í Reykjavík en með sameiningunni bætast við hús á Eiðum, í Varmahlíð í Skagafirði og í Munaðarnesi. Verði samkomulagið staðfest af aðalfundi SFS mun bókhald félagsins færast til skrifstofu Kjalar á Akureyri, auk þess sem fráfarandi formaður SFS fær strax sæti sem áheyrnarfulltrúi í stjórn Kjalar fram að aðalfundi í mars. Þá verður leitað eftir samningi við Stéttarfélagið Ölduna um þjónustu á skrifstofu þess á Sauðárkróki við félagsmenn í Skagafjarðardeild Kjalar.
Miklir kostir við sameiningu
Starfsmannafélag Skagafjarðar var stofnað árið 1971 og innan vébanda þess eru ríkisstarfsmenn í Skagafirði, sem og starfsmenn hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, alls um 160 félagsmenn. Árni Egilsson, formaður stjórnar SFS, telur félagsmenn skapa sér sterkari stöðu í stærra félagi.
"Ávinningurinn er fjölþættur og snýr að launamálum, orlofsmálum, starfsmenntamálum og ýmsu öðru. Stéttarfélög þurfa að vera stærri í þeim heimi sem við búum í dag og sterkari gagnvart viðsemjendum. Lítil stéttarfélög eru smám saman að verða börn síns tíma. Að okkar mati eru því miklir kostir við þessa sameiningu," segir Árni.