Á undanförnum vikum hefur mikið verið deilt um virði samkeppniseftirlits fyrir íslenskt samfélag og hagsæld í landinu. Gagnrýnendur Samkeppniseftirlitsins hafa gengið svo langt að tala fyrir varanlegri veikingu stofnunarinnar með tilheyrandi afturför, ójöfnuði og kjaraskerðingu fyrir íslenskan almenning. Í ljósi þessa viljum við, hagfræðingar þriggja heildarsamtaka á vinnumarkaði með samanlagt um 175.000 félagsmenn, árétta mikilvægi samkeppniseftirlitsins og virkrar samkeppni fyrir hagsæld íslensks launafólks og velferð á Íslandi.
Veiking Samkeppniseftirlits vinnur gegn markmiðum kjarasamninga
Eitt af markmiðum kjarasamninga er að stuðla að auknum kaupmætti launa í landinu. Veiking samkeppniseftirlits vinnur gegn því markmiði. Aukin fákeppni á markaði mun gera atvinnurekendum kleift að auka álagningu í verði vöru- og þjónustu á Íslandi og velta kostnaðarhækkunum m.a. launahækkunum í ríkari mæli út í verðlagið en ella. Við aðstæður fákeppni eykst jafnframt hætta á samhæfingu keppinauta sem birtist í hærra verði og auknum hagnaði á kostnað launafólks. Stærri fyrirtæki í fákeppnis- eða einokunarstöðu geta jafnvel staðið í vegi fyrir innkomu nýrra aðila á markað og þar með unnið gegn framþróun, nýsköpun og aukinni framleiðni á Íslandi. Þetta eru hætturnar af veikingu Samkeppniseftirlitsins og um þetta eru til fjölmörg dæmi í hagsögunni.
Fákeppnin leynist víða á Íslandi
Fákeppni á markaði á Íslandi skýrir að hluta af hverju Ísland hefur verið eitt dýrasta land heims um árabil. Til dæmis má nefna að árið 2019 voru matur og drykkjarvörur og föt og skór 40 prósent dýrari hér á landi en í löndum Evrópu og póstur og sími 112 prósent dýrari. Íslendingar verja þá mun stærri hluta landsframleiðslunnar í smágreiðslumiðlun og þjónustugjöld til banka en Danir svo dæmi séu tekin. Forsvarsmenn hagsmunasamtaka á vettvangi atvinnulífs hafa einatt skýrt verðmuninn með háu launastigi á Íslandi, gengissveiflum og smæð innanlandsmarkaðar eingöngu. Fákeppni skýrir hins vegar mikinn hluta af verðmuninum og sést það m.a. í því að margar atvinnugreinar á Íslandi hafa búið við arðsemi eigna upp á tugi prósenta á ársgrundvelli á síðustu árum. Í nýlegri könnun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2020 á þekkingu og viðhorfum íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála kemur þá fram að 35 prósent stjórnenda töldu sig verða vara við misnotkun á markaðsráðandi stöðu á markaði, að nokkru, frekar miklu eða mjög miklu leyti. Þá töldu 28 prósent sig verða vara við ólögmætt samráð.
Við verðum að varðveita þann árangur sem hefur náðst
Markaðsstyrkur stórfyrirtækja á Vesturlöndum hefur aukist mikið á þessari öld með tilheyrandi ójöfnuði. Ástæðurnar eru margslungnar en lítil stéttarfélagsþátttaka, kerfisbundin veiking samkeppniseftirlits og stóraukin sérhagsmunagæsla stórra fyrirtækja leikur þar stórt hlutverk. Þetta er ein skýring þess að kaupmáttur launa í Bandaríkjunum hefur ekki aukist í áratugi þveröfugt við þróun í mörgum Evrópulöndum. Sterk samkeppnislöggjöf hefur leikið lykilhlutverk í að viðhalda kaupmætti launa í Evrópu.
Það eru aðeins rúm 40 ár síðan sett voru lög á Íslandi um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og tæp 30 ár frá setningu heildstæðra samkeppnislaga á Íslandi. Fram að þeim tíma höfðu atvinnurekendur á Íslandi barist gegn setningu samkeppnisreglna með kjafti og klóm og stóð sú barátta nær alla 20. öldina.
Veiking samkeppniseftirlits þjónar helst hagsmunum þeirra fyrirtækja sem eru í stöðu til að nýta sér fákeppni til að skara eld að eigin köku. Þótt Samkeppniseftirlitið á Íslandi sé ekki hafið yfir gagnrýni, þá liggur lausnin ekki í því að veikja það eins og sumir atvinnurekendur vilja, heldur að styrkja það og efla það til að standa vörð um samfélagslega hagsmuni.
Kaupmáttur launafólks á Íslandi hefur tvöfaldast á síðustu 30 árum. Sá árangur hefði ekki náðst að fullu ef fyrirtæki hefðu haft meiri getu til að stýra verðlagi á Íslandi í krafti fákeppninnar.
Róbert Farestveit, sviðsstjóri stefnumótunar og greininga hjá ASÍ
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB
Vilhjálmur Hilmarsson hagfræðingur BHM