Alþjóðlegur baráttudagur kvenna verður haldinn hátíðlegur um allan heim þann 8. mars. Rosa Pavanelli, aðalritari PSI (Public Service international), sagði að þótt víða hefði mikill árangur náðst í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna væri enn mjög langt í land og ástandið sums staðar í heiminum væri í raun skelfilegt.
“Við viljum að SÞ kynni stefnur sínar í jafnréttismálum með áberandi hætti þannig að það hafi raunveruleg áhrif þar sem þess er mest þörf. Þessi mál eiga að vera á dagskrá í öllum ríkjum heimsins, hvort sem um er að ræða kynjajafnrétti eða félagslegt jafnrétti. Samfélag án aðgreiningar er eina leiðin til þess að allir geri notið fullra mannréttinda og frelsis. PSI mun halda áfram að leggja sitt af mörkum og vinna að þessu markmiði ásamt samstarfsaðilum sínum,“ segir Rosa Pavanelli í tilefni 8. mars 2014.
í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti verður dagskrá í Iðnó í miðbæ Reykjavíkur þann 8. mars þar sem nokkur erindi verða flutt ásamt tónlist. Dagskráin mun hefjast kl. 14:00 og verður hún sem hér segir:
1. Brynhildur Heiðar og Ómarsdóttir, Kvenréttindafélagi Íslands (konur til forystu úr öllum áttum).
2. Johanna van Schalkwyk, Konur af erlendum uppruna (stjórnmálaþátttaka kvenna af erlendum uppruna).
3. Ása Hauksdóttir, varaformaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (unglingar í innflytjendafjölskuldum).
4. Reykjavíkurdætur rappa.
5. Danute Sakalauskiene sjúkraliði (réttindi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði)
6. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í Borgarholtsskóla (samfélagið er í ruglinu)
7. Lea María MFÍK (fyrir friði og jafnrétti).
8. Áfram stelpur!
Fundarstjóri, Kolbrún Halldórsdóttir.
Þá minnir BSRB á að jafnréttisnefnd bandalagsins býður til hádegisverðarfundar um mismunun á íslenskum vinnumarkaði þann 11. mars n.k. kl 11:50-13.
Á fundinum flytur Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur á Jafnréttisstofu, erindið „Ekki benda á mig...“ – Um mismunun á íslenskum vinnumarkaði. Í erindi sínu mun Ingibjörg fjalla um nýja rannsókn sem Jafnréttisstofa lét gera um jafnrétti og mismunun á vinnumarkaði.
Um nokkurt skeið hefur staðið til að innleiða tvær tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun og er sú vinna vel á veg komin. Jafnréttisstofa tekur þátt í verkefni með Mannréttindaskrifstofu Íslands og Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði sem lýtur m.a. að því að kortleggja mismunun á íslenskum vinnumarkaði og kanna þekkingu stjórnenda á mismununartilskipununum tveimur. Verkefni þetta er styrkt af Progress-sjóði Evrópusambandsins. Í erindinu mun Ingibjörg gera grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum stjórnenda fyrirtækja með fleiri en 25 starfsmenn til jafnréttismála og mismununar á vinnumarkaði.
Fundurinn verður í fundarsal á 1. hæð í BSRB-húsinu Grettisgötu 89 og boðið verður upp á léttar veitingar. Allir eru velkomnir en fundargestir eru vinsamlega beðnir um tilkynna þátttöku fyrir hádegi mánudaginn 10. mars með því að senda póst á asthildur@bsrb.is