Mikilvægar breytingar voru gerðar síðastliðið sumar sem stuðla að auknu tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og upplýsingarétti almennings. Lagabreytingarnar voru afurð vinnu nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis en með breytingunum er meginreglan sú að opinberir starfsmenn njóta almennt tjáningarfrelsis.
Nýjum kafla hefur verið bætt við stjórnsýslulögin, en hann ber yfirskriftina ,,um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna“. Markmiðið er að gera þær reglur sem gilda um tjáningarfrelsi annars vegar og þagnarskyldu hins vegar skýrari en verið hefur. Samhliða þessum breytingum voru gerðar breytingar á upplýsingalögum og um 80 öðrum lagabálkum til þess að samræma framkvæmd þagnarskyldu og upplýsingagjöf í íslenskum rétti.
Opinberir starfsmenn hafa rétt og frelsi til þess að tjá sig opinberlega um atriði sem tengjast starfi þeirra, sem lengi sem þagnarskylda og trúnaðarskyldur standa því ekki í vegi. Í frumvarpi með breytingunum sagði að verið væri að setja samræmdar og skýrari reglur um þagnarskyldu. Mun það án efa leiða til einföldunar og fyrirsjáanleika í réttarframkvæmd og þar með auka réttaröryggi, tjáningar- og upplýsingafrelsi.
BSRB sendi inn umsögn um frumvarpið þegar það var til meðferðar á Alþingi og studdi framgang þess. BSRB telur jákvætt að skýrt sé kveðið á um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og að þær reglur sem gildi um slík mál séu gerðar skýrari.