Ráðherra stenst þrýsting um frekari einkavæðingu

Stjórn BSRB telur að efla þurfi heilbrigðiskerfið verulega og vinna svo um munar á biðlistum í aðgerðir.

Stjórn BSRB fagnar því að heilbrigðisráðherra ætli að standast þrýsting hagsmunaaðila sem vilja hagnast á sjúklingum með því að hafna rekstri einkarekins sjúkrahúss.

Í ályktun stjórnar bandalagsins, sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar í morgun, er því fagnað að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hafi lýst því yfir að ekki verði samið við Klíníkina um rekstur legudeildar.

„Hins vegar styð ég ekki og mun ekki styðja uppbyggingu á einkareknum sjúkrahúsum með heildstæðri þjónustu sem eru reknar í gróðaskyni. Það er andstætt, held ég, tilfinningu okkar allflestra ef ekki allra Íslendinga þegar kemur að almennri heilbrigðisþjónustu,“ sagði Óttarr á Alþingi í gær þegar hann svaraði fyrirspurn frá Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni Vinstri grænna.

Stjórn BSRB fagnar því að heilbrigðisráðherra tali með svo afgerandi hætti og ætli ekki að heimila rekstur einkarekins sjúkrahúss Klíníkurinnar. Í ályktuninni er þó varað við því að til verði tvöfalt heilbrigðiskerfi hér á landi og stjórnvöld hvött til þess að efla heilbrigðiskerfið verulega og vinna á biðlistum sem myndast hafa í kerfinu.

Stefna BSRB er skýr, heilbrigðiskerfið á að reka af hinu opinbera fyrir skattfé, án þess að leggja gjöld á sjúklinga sem þurfa að nota sér þjónustuna.

Ályktun stjórnarinnar í heild má lesa hér að neðan.


Ályktun stjórnar BSRB heilbrigðismál

Stjórn BSRB fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að heimila ekki rekstur einkarekins sjúkrahúss með yfirlýsingu um að hann ætli að hafna beiðni Klíníkurinnar. Bandalagið hefur ítrekað varað við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það er því ánægjulegt að heilbrigðisráherra ætli ekki að láta undan þrýstingi þeirra sem vilja hagnast á sjúklingum.

Stjórnin varar jafnframt við því að hér verði til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Efla þarf heilbrigðiskerfið verulega og vinna svo um munar á biðlistum í aðgerðir. Þá þurfa stjórnvöld að draga verulega úr kostnaðarþátttöku. Markmiðið á að vera heilbrigðiskerfi sem rekið er fyrir skattfé þar sem sjúklingar fá þá þjónustu sem þeir þurfa án þess að greiða sérstaklega fyrir hana.

Reykjavík, 24. mars 2017


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?