Landspítali háskólasjúkrahús-bráðadeild hlaut í dag nýsköpunarverðlaunin 2014 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, sem afhent voru á ráðstefnu á Grand hótel. Verðlaunin voru í dag afhent í þriðja sinn og að þessu sinni voru yfir 40 verkefni tilnefnd.
Frá upphafi hafa yfir 140 verkefni verið tilnefnd til verðlaunanna.
Verkefni Landspítala sem bar sigur úr býtum nefnist „Rauntíma árangursvísar á bráðadeild“. Verkefnið felur í sér notkun skjáborðs með árangurs- og gæðavísum sem sýndir eru í rauntíma sem liður í gæða- og öryggisstjórnun á bráðamóttöku. Árangurs- og gæðavísarnir gefa starfsmönnum ómetanlegar upplýsingar yfir sólarhringinn og gera stjórnendum kleift að bregðast við álagspunktum með markvissari hætti en áður og fylgjast með gæðum í þjónustunni á mismunandi þjónustustigum. Mælarnir hafa vakið mikla athygli, bæði innanlands sem og meðal erlendra ráðgjafa sem komið hafa á Landspítala, þar sem þetta þykir einstakt.
Fjögur önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun. Það voru Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrir „Að halda glugganum opnum“, Dalvíkurbyggð fyrir „Söguskjóður“, Reykjanesbær fyrir „Framtíðarsýn í menntamálum“, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga fyrir „Þjónusta við blinda og sjónskerta“.
Á ráðstefnunni fjallaði dr. Marga Pröhl framkvæmdastjóri European Institute of Public Administration (EIPA) í Hollandi um hvernig hægt væri að efla og hvetja til nýsköpunar í opinbera geiranum. Dr. Hilmar Bragi Janusson forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi framkvæmdastjóri vöruþróunar og rannsóknastarfs hjá Össuri hf. flutti erindi um hvernig nýsköpun í opinberum rekstri nýtist til aukinnar skilvirkni í starfsemi stofnana. Að lokum fjölluðu Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Valgerður Stefánsdóttir forstöðumaður um verkefni sín sem hlotið hafa viðurkenningar hérlendis og erlendis á síðustu árum og ræddu þátt stjórnenda í að skapa nýsköpunarmenningu hjá stofnun.
Finna má nánari upplýsingar um öll verkefnin sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna í ár ásamt öðru fróðlegu efni um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á vefsíðunni nýsköpunarvefur.is