Niðurskurður er ekki valkostur

Ekki hefur verið gert nóg til að koma til móts við þá sem verst hafa orðið úti vegna heimsfaraldursins.

Sérfræðingahópur verkalýðshreyfingarinnar vegna efnahagslegra áhrifa COVID-faraldursins varar við neikvæðum afleiðingum niðurskurðar og samdráttar á velferð og lýðheilsu og bendir á að ekki hafi verið gert nóg til að koma til móts við þá sem verst hafa orðið úti vegna efnahagskreppunnar sem faraldurinn hefur framkallað.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sérfræðingahóps ASÍ og BSRB sem birt er í dag. Hópurinn telur skuldir ríkisins ekki vera áhyggjuefni svo lengi sem vextir eru lægri en hagvöxtur. Skuldahlutfall Íslands sé í lægra lagi í alþjóðlegu samhengi og atvinna og afkoma ættu að vera lykilhugtök til að tryggja að hagvöxtur framtíðarinnar geti létt á skuldaálaginu. Lög og reglur um opinber fjármál eigi að styðja við þessi áhersluatriði og nauðsynlegt sé að endurmeta fjármálareglur laga um opinber fjármál áður en þær eru settar í samband að nýju.

Í skýrslunni fjallar sérfræðingahópurinn um opinber fjármál í tengslum við COVID-kreppuna og hvort tilefni sé til að endurskoða lagarammann í kringum þau. Fjallað er um gjörbreytta afstöðu helstu alþjóðastofnana til niðurskurðar sem viðbragðs við efnahagsþrengingum. Þá er fjallað um fjármálareglur, fjármálaáætlun 2022-2026, skuldir hins opinbera og hlutverk ríkisins þegar efnahagslegar hamfarir ríða yfir.

Til að bregðast við áhrifum COVID-kreppunnar ákváðu heildarsamtök launafólks að skipa hóp sérfræðinga til að leggja mat á efnahagsleg áhrif hennar. Hópurinn tók til starfa í september 2020 og hefur í greiningum og skýrslum leitast við að kortleggja áhrif COVID-faraldursins á ólíka þjóðfélagshópa. Lögð hefur verið áhersla á aðgerðir til að fyrirbyggja langtímaskaða og framkalla öfluga viðspyrnu þegar hamförunum lýkur.

Í sérfræðingahópnum eiga sæti:
  • Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, formaður
  • Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum og situr í fjármálaráði
  • Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB
  • Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði
  • Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði
  • Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur ASÍ, starfar með hópnum

BHM átti áður aðild að hópnum og starfaði Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur samtakanna, með honum fram í apríl 2021.

Hægt er að sækja skýrslu sérfræðingahópsins hér.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?