Nauðsynlegt að taka pásur yfir vinnudaginn

Það er nauðsynlegt að taka pásur frá vinnu yfir vinnudaginn og helst að komast aðeins í burtu frá vinnustöðinni.

Það er öllum nauðsynlegt að slaka á endrum og eins, en endurheimt er ekki síður mikilvæg innan vinnudagsins og hún er utan hans. Það getur haft í för með sér alvarlega afleiðingar, bæði andlega og líkamlega, ef þessari endurheimt er ekki náð.

BSRB hefur lagt ríka áherslu á endurheimt utan vinnudagsins, til dæmis með því að koma í veg fyrir vinnutengd símtöl til starfsfólks utan vinnutíma eða að gerð sé krafa um að þau vakti tölvupóst sinn þegar heim er komið. Þessi endurheimt er jafnframt liður í styttingu vinnuvikunnar og hafa rannsóknir sýnt að ávinningur af styttri vinnuviku sé meðal annars betri líðan og minni veikindafjarvera.

Nýleg norsk rannsókn sýnir fram á að starfsfólk sem nær ekki endurheimt innan vinnudags, til dæmis með matar- og kaffitímum á vinnutíma, sé mun líklegra til að verða fyrir andlegri og líkamlegri þreytu. Það geti jafnvel verið heilsuspillandi til lengri tíma. Niðurstöðurnar bera þannig með sér að þeir sem slaka aldrei á yfir vinnudaginn geti verið allt að sjö sinnum líklegri til þess að lenda í andlegum og líkamlegum kvillum heldur en þeir starfsmenn sem standa upp inn á milli, taka sér stutta stund frá amstrinu og slappa aðeins af. Þá er jafnframt afar mikilvægt að borða hádegismat fjarri vinnustöð þegar það er hægt og taka kaffipásur til að eiga smá spjall við vinnufélagana eða aðra.

Með styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu, sem tók gildi um síðustu áramót, var samið um að starfsfólk geti stytt sína vinnuviku úr 40 stundum í allt að 36 stundir. Þar gefst starfsfólki kostur á að stuðla að frekari endurheimt, verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum eða sinna áhugamálunum. Norska rannsóknin varpar hins vegar ljósi á það hversu mikilvægt það er að taka sér pásur innan vinnudagsins. Það sé nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir andlega og líkamlega kvilla sem geta verið afleiðing of mikils álags á starfsfólk.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?