Launakönnun SFR, St.Rv og VR

Tvö fjölmennustu aðildarfélög BSRB, SFR-stéttarfélag í almannaþjónustu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, hafa auk VR haft með sér samstarf um gerð launakannana undanfarin ár. Með þessum könnunum fást mikilvægar upplýsingar um launaþróun og samanburð milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum.

Félagsmenn SFR starfa hjá ríki, sjálfseignarstofnunum og opinberum fyrirtækjum,  félagsmenn St.Rv. starfa hjá Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Seltjarnarnesi og fleiri opinberum fyrirtækjum og stofnunum, en félagsmenn VR vinna á almennum vinnumarkaði. Könnunin var unnin af Capacent Gallup í febrúar og mars 2013.

Lægst laun hjá hinu opinbera

Launin eru hæst á almennum vinnumarkaði og munar þar talsverðu. Félagsmenn VR eru með  tæplega 18% hærri heildarlaun en félagsmenn SFR og 28% hærri heildarlaun en félagsmenn St.Rv. að teknu tilliti til mismunandi samsetningar hópanna.

Launin hækka mest á milli ára hjá VR, eða um 7%. Hjá SFR hækka launin um 6% og hjá St.Rv. um einungis 2,3%. Þá njóta fleiri starfsmenn á almennum markaði hlunninda, eða 70% á móti 60% opinberra starfsmanna, en verulega dregur úr hlunnindum á milli ára hjá opinberum starfsmönnum, sérstaklega hjá félagsmönnum St.Rv.

Í ljósi þessara niðurstaðna þarf engan að undra að félagsmenn hjá hinu opinbera eru almennt mun óánægðari með launakjör sín en félagsmenn á almennum vinnumarkaði en tæplega helmingur félagsmanna VR er ánægður með launakjör sín. Félagsmenn St.Rv. eru líkt og í fyrra óánægðastir með  laun sín en aðeins rúmlega 12% félagsmanna St.Rv. segjast ánægðir með launakjör, en 18,6% SFR félaga eru ánægðir.

Launamunur kynjanna

Heildarlaun karla eru hærri en kvenna í öllum starfsstéttum. Munur á heildarlaunum karla og kvenna hjá SFR í fullu starfi er rúm 21% körlum í hag, en 15% hjá St.Rv. Karlar fá hærri grunnlaun en konur, hærri yfirvinnugreiðslur og oft aðrar greiðslur umfram konur. Launamunur kynjanna er einnig meiri eftir því sem menntun fólks er minni og því eldri sem svarendur eru. Því eldri og minna menntaðir sem svarendur eru, því meiri verður munurinn konum í óhag. Á þetta bæði við um félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR stéttarfélags.

Kynbundinn launamunur (þ.e. tillit hefur verið tekið til þátta sem almennt er talið eðlilegt að hafi áhrif á laun, þ.e. aldur, starfsaldur, starfsstétt, menntun, vaktaálag, mannaforráð og vinnutími) mælist hins vegar 7% hjá félagsmönnum innan SFR, sem er örlítið minna en undanfarin ár. Hjá St.Rv. fer hann hins vegar örlitið hækkandi og mælist nú 9,9%. Á meðfylgjandi mynd má sjá samanburð á launamun kynjanna hjá þeim bandalögum og stéttarfélögum sem nýverið hafa birt niðurstöður launakannana. Eins og sjá má er kynbundinn launamunur mestur hjá BSRB en minni hjá SFR og St.Rv. þrátt fyrir að félögin séu tvö stærstu BSRB aðildarfélögin og telja tæplega helming félagsmanna bandalagsins. Þetta er jákvæð þróun fyrir félögin sem hafa verið í forystu baráttunnar gegn launamun kynjanna undanfarin ár.

Frekari upplýsingar og ítarlegri niðurstöður má nálgast á heimasíðum SFR og St.Rv.



Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?