Rétt eins og íslenska heilbrigðiskerfið varði landsmenn í heimsfaraldrinum sem nú virðist loks á undanhaldi er almenningur tilbúinn að standa vörð um heilbrigðiskerfið sem hefur reynst okkur svo vel. Ný skoðanakönnun sýnir svo ekki verður um villst að mikill meirihluti landsmanna vill heilbrigðiskerfi sem rekið er af hinu opinbera fyrir skattfé okkar allra og hafnar aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.
BSRB hefur í gegnum tíðina látið gera reglulegar skoðanakannanir á afstöðu almennings til heilbrigðiskerfisins með Rúnari Vilhjálmssyni prófessor. Niðurstöðurnar úr nýjustu könnuninni voru gerðar opinberar í fyrir viku og eru afgerandi. Átta af hverjum tíu landsmanna vilja að það sé fyrst og fremst hið opinbera sem reki sjúkrahúsin, sjö af tíu vilja heilsugæsluna í opinberum rekstri og sex af tíu eru þeirrar skoðunar þegar kemur að hjúkrunarheimilum. Aðeins örlítið hlutfall, vel innan við fimm prósent, vill að þessi starfsemi sé fyrst og fremst á hendi einkaaðila.
Við vitum hvað við höfum í opinberu heilbrigðiskerfi og sporin hræða hjá þeim þjóðum sem gengið hafa lengra í einkavæðingu. Þrátt fyrir eindregin þjóðarvilja er mikill þrýstingur á stjórnvöld að einkavæða meira. Síðasta dæmið um slíka einkavæðingu í óþökk almennings er yfirfærsla öldrunarþjónustu á Akureyri til einkaaðila sem á að spara peninga með einhverjum óskiljanlegum hætti sem enginn hefur geta útskýrt.
Við verðum að draga línu í sandinn og hafna alfarið frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Einkaframkvæmd er ekki töfraorð sem lækkar kostnað. Eins og Rúnar Vilhjálmsson prófessor benti á í erindi á opnum fundi BSRB eykur einkaframkvæmd almennt kostnað vegna kostnaðarliða á borð við stjórnunarkostnað, arðgreiðslur og aukins kostnaðar eftirlitsaðila.
Í stað þess að íhuga frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu eigum við að hlusta á vilja landsmanna, efla opinbera heilbrigðiskerfið og draga úr þeirri einkavæðingu sem þegar er orðin allt of mikil.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB