Krefjast afturköllunar uppsagna

SFR stéttarfélag í almannaþjónustu mótmælir harðlega þeim aðferðum sem viðhafðar voru við uppsagnir starfsfólks á Samgöngustofu fyrir skemmstu og gerir þá skýlausu kröfu að uppsagnirnar verði dregnar til baka hið fyrsta.

Félagið hefur sent bréf til forstjóra Samgöngustofu með formlegri kröfu þess efnis að uppsagnirnar verði dregnar til baka enda brjóti þær gegn lögum um hópuppsagnir nr. 63 frá árinu 2000, þar sem mælt er fyrir um skýra og fortakslausa samráðsskyldu atvinnurekanda. Í tilviki Samgöngustofu var þessum skyldum í engu sinnt. Að framkvæma hópuppsagnir með þeim hætti sem gert var á Samgöngustofu og án samráðs við hagsmunaaðila starfsmanna sýnir ekkert annað en gengdarlaust tillitsleysi. Virðingarleysi forstjóra Samgöngustofu í garð starfsmanna og viðsemjenda þeirra virðist algjört.

Um er að ræða verulega hagsmuni félagsmanna og hefur félagið gefið Samgöngustofu frest til þess að taka afstöðu til kröfunnar ella muni félagið leita réttar félagsmanna sinna fyrir dómstólum.




Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?