Íbúðir Bjargs á Akranesi tilbúnar eftir innan við ár

Samningur við Modulus var undirritaður á skrifstofu Bjargs.

Bjarg íbúðafélag hefur samið við Modulus um byggingu 33 íbúða í þremur nýjum húsum sem rísa munu á Akranesi. Stefnt er að því að íbúðirnar verði tilbúnar og afhentar íbúum næsta vor eða sumar.

Húsin verða einingahús sem Modulus hefur sérhæft sig í og því hægt að reisa þau hraðar en önnur hús sem nú eru í hönnun eða byggingu hjá Bjargi. Gangi áætlanir eftir gætu fyrstu íbúar flutt inn í húsin á Akranesi í byrjun júní á næsta ári, en stefnt er að því að afhenda fyrstu íbúðirnar í Spönginni í Reykjavík í byrjun júlí, þrátt fyrir að uppbygging þar hafi hafist í febrúar síðastliðnum.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd. Leiðarljós félagsins er að byggja vel hannað, hagkvæmt og endingargott húsnæðihúsnæði. Miðað er við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25% af heildartekjum leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta.

Framkvæmdir eru þegar hafnar á tveimur lóðum í Reykjavík, í Spönginni í Grafarvogi og í Úlfarsárdal og ganga framkvæmdir vel. Þá er hefur þegar verið ákveðið að byggja á Akureyri, Akranesi, Selfossi, Þorlákshöfn og í Sandgerði.

Þeir félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem hafa hug á að sækja um íbúð hjá Bjargi eru hvattir til að nota sér reiknivél á vef Bjargs og skila inn umsókn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?