„Verkafólk frá löndum eins og Indlandi, Nepal, Sri Lanka, Filippseyjum og löndum Afríku eru á margan hátt í nauðungarvinnu. Þeim er neitað um að stofna stéttarfélög, aðbúnaður skelfilegur og gjarnan eru þeim ekki greidd umsamin laun. Fjöldi ungra manna hefur dáið við þessar aðstæður,“ sagði Sharan Burrows framkvæmdastjóri ITUC, Alþjóðasambands verkalýðsfélaga, fyrir fáeinum mánuðum þegar ljóst varð að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu yrði haldin í Katar. Á morgun hefst þar heimsmeistarakeppnin í handknattleik og því er ekki úr vegi að benda á hinar skelfilegu aðstæður sem verkafólk býr við í landinu.
Talið er að um 1,5 milljónir farandverkamanna starfi í Katar í því sem framkvæmdastjóri Alþjóðasambanda verkalýðsfélaga hefur lýst sem nútíma þrælahaldi. Á síðustu árum hefur landið tryggt sér viðburði á borð við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu og handbolta karla, heimsmeistaramótið í sundi og fimleikum. Allar byggingar vegna þessara viðburða hafa verið og verða byggðar frá grunni og þar verður ekkert til sparað. Nema vitanlega við réttindi, laun og aðbúnað fólksins sem starfar við framkvæmdirnar.
Katar er eitt auðugasta land heims en býr við svokallað kafala-kerfi. Í því fellst að atvinnurekendur ákveða hvort verkafólkið sem fyrir þá starfa fái landvistarleyfi og þeir ákveða jafnframt hvort fólk megi yfirgefa landið. Oftar en ekki halda þeir eftir öllum ferðaskilríkjum farandverkamanna. Telji fólk á sér brotið hefur það að engu að snúa og er algjörlega undir vilja atvinnurekendanna komið.
Mikill þrýstingur hefur verið á Katar eftir að ljóst var að þeir muni halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 en þrátt fyrir það hefur lítið miðað áfram í að brjóta kafala-kerfið á bak aftur. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch, Amnesty, Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðleg verkalýðssambönd hafa ítrekað bent á hin grófu mannréttindabrot sem framin eru á farandverkafólki í Katar en samt heldur alþjóða íþróttahreyfingin áfram að velja Katar til að vera gestgjafi hinna ýmsu íþróttaviðburða.
Samkvæmt athugunum mannréttindasamtaka og Alþjóðasambands verkalýðsfélaga lætur gríðarlegur fjöldi fólks lífið við byggingarframkvæmdir á hverju ári í Katar. ITUC benti á síðasta ári á þá staðreynd að ef áfram heldur sem horfir muni um 4000 manns látast við framkvæmdir við mannvirki fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022. Þá eru ótaldir allir þeir sem hafa unnið við mannvirkjagerð vegna annarra viðburða og þeir sem slasast alvarlega eða hafa orðið fyrir öðrum skaða í störfum sínum.
Danskir fjölmiðlar hafa verið öflugir við að fjalla um mál farandverkafólks í Katar nú í aðdraganda heimsmeistaramótsins í handbolta. Fréttamenn Ekstrabladet fjölluðu nýverið um nepalska farandverkamenn í Katar en talið er að þeir séu um hálf milljón í landinu. Þar lýsir fólk þeim veruleika að ekki fáist fyrirfram umsamin laun. Í stað 8 tíma vinnudags, 5 daga vikunnar er fólk látið vinna 9-14 tíma á dag 6 daga í viku. Verði fólk veikt og komist ekki til vinnu einn dag missir það laun tveggja daga. Stofnun verkalýðsfélaga er með öllu bönnuð og enginn leið er fyrir farandverkafólkið að fá greitt úr málum sínum. Fólkið býr tugum saman í gluggalausum smárýmum og hafa engan aðgang að hreinlætisaðstöðu.
Komi upp ágreiningur hefur atvinnurekandinn öll spilin á sinni hendi. Fólk skrifar því gjarnan upp á hvað sem er til þess eins að komast frá landinu enda fær fólk ekki að yfirgefa landið nema með leyfi atvinnurekandans. Aðbúnaður verkafólks í Katar er því sannarlega líkt og framkvæmdastjóri Alþjóðasambands verkalýðsfélaga hefur sagt, nútíma þrælahald.
Sharan Burrows framkvæmdastjóri ITUC, Alþjóðasambands verkalýðsfélaga.