Árið 2020 reyndi mikið á hæfni einstaklinga og getu þeirra til að finna nýjar lausnir á vandamálunum sem setti hugmyndir um hæfni til framtíðar í nýtt ljós fyrir marga, sagði Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar á Menntadegi BSRB í dag.
Þar fjallaði hún meðal annars um hvernig COVID-19 faraldurinn hafi varpað ljósi á mikilvægi hæfniþátta sem Alþjóða efnahagsstofnunin hafi talið mikilvæga fyrir vinnandi fólk að tileinka sér fyrir árið 2025. Þar má til dæmis nefna aðlögunarhæfni, tæknilæsi og stafræna hæfni, nýsköpun, fjölmiðlalæsi, tilfinningagreind og félagslega hæfni ásamt öðrum þáttum.
Menntadagur BSRB fór fram í dag undir yfirskriftinni „Til móts við ný tækifæri“. Þar voru flutt fjölmörg erindi um fjórðu iðnbyltinguna, nýjar áherslur og áskoranir í menntamálum og innra starf í breyttum heimi. Glærukynningar framsögumanna eru aðgengilegar hér að neðan, sem og upptaka af fundinum, sem var rafrænn vegna sóttvarnaráðstafana.
„Covid sýnir okkur að það gerist margt sem við sjáum ekki fyrir,“ sagði Guðfinna Harðardóttir í erindi sínu. Lærdómurinn af heimsfaraldrinum sé sá að framtíðin sé ekki fyrirsjáanleg.
Guðfinna benti einnig á að samkvæmt norskri rannsókn voru um 14 prósent Norðmanna með litla stafræna grunnhæfni. Sé sú tala yfirfærð yfir á Ísland megi reikna með að nærri 41 þúsund einstaklingar séu í þeirri stöðu.
Það er hins vegar aldrei of seint að tileinka sér nýja þekkingu, eins og breytingarnar síðastliðið ár hafa sýnt svo vel, sagði Guðfinna. Áfram verði þörf fyrir opinbera starfsmenn þó störfin kunni að breytast, enda ýmislegt sem mannshöndin eða hugurinn þurfi að koma nærri. „Opinber þjónusta snýst um fólk. Hún snýst um að fylgja fólki í þeirra verkefnum frá vöggu til grafar,“ sagði Guðfinna.
Hún hvatti þar til þess að launafólk hugi að eigin starfsþróun, möguleikum sínum til að þróast faglega, tileinka sér nýja þekkingu, leikni og viðhorf sem nýtist í starfi. Það megi ekki vera eitthvað sem fólk ákveður að gera í eitt skipti heldur eigi það að vera vinna sem er sífellt í gang.
Hugum að hugaraflinu
Guðfinna benti á að starfsþróun snúist ekki eingöngu um að fara á námskeið heldur að vera rétt undirbúin fyrir verkefnin. „Við myndum ekki senda slökkviliðsmenn inn án búnings og við myndum ekki senda heilbrigðisstarfsfólkið okkar til vinnu án grímu. Við þurfum að huga að hugaraflinu, það er það sem við vinnum mest með,“ sagði Guðfinna.
Þar þurfi að þróa ýmsa þætti, til dæmis samskipti og þjónustu, sértæka fræðslu tengda vinnustaðnum, stafræna hæfni, skipulag og tímastjórnun ásamt sjálfseflingu og starfsanda. Þá þurfi stjórnendur og sérfræðingar að tileinka sér bestu mögulega þekkingu og læra hvernig þeir eigi að vera leiðtogar, hvetja og hrósa og skipuleggja vinnu undirmanna sinna með sem bestum hætti.
Hér að neðan má finna glærur framsögufólks á Menntadegi BSRB:
- Tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar – Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, eigandi og sérfræðingur hjá Aton.JL
- Fjórða iðnbyltingin – stefna og aðgerðir stjórnvalda – Henný Hinz, aðstoðarmaður ríkisstjórnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftlagsmála
- Greining á mannaflaþörf og færnispá – Karl Sigurðsson, sérfræðingur í vinnumarkaðs- og menntamálum hjá BSRB
- Að huga að eigin starfsþróun – Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar
- Trú á eigin getu í stafrænu samfélagi – Vigdís Þyrí Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Framvegis, og Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Framvegis
- Hverjir skipta máli? – Marín Björk Jónasdóttir, sviðsstjóri iðn- og starfsnáms í Borgarholtsskóla
- Ný tækifæri í trúnaðarmannafræðslu – Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í fræðslu- og kynningarmálum hjá Félagsmálaskólanum og Alþýðusambandi Íslands
Upptöku frá Menntadegi BSRB má sjá hér að neðan.