Fyrirvarar við forsendur fjárlaga

BSRB setur mikla fyrirvara við forsendur útreikninga á áhrifum breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum í fjárlagafrumvarpinu. Þetta kemur fram í umsögn BSRB um fjárlagafrumvarpið sem nýverið var send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis en einnig er stuttlega farið yfir sama mál í grein í Fréttablaðinu í dag. Umsögnina má nálgast í heild sinni hér á vef Alþingis.

Í útreikningum í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 eru nokkur dæmi þar sem áhrif fyrirhugaðra breytinga eru reiknuð miðað við mismunandi fjölskyldugerðir. Í umræddum útreikningum er gert ráð fyrir því að skattabreytingarnar skili sér að fullu út í verðlag og á það bæði við um lækkanir og hækkanir skatta og vörugjalda.

Erfitt er að spá fyrir um með nokkurri vissu hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar munu hafa þar sem þær hafa mjög sjaldan verið framkvæmdar. Sterk vísbending um áhrif utanaðkomandi þátta á verðlag er gengissveifla íslensku krónunnar. Þær breytingar eru vel þekktar og hafa verið vel kannaðar samanber rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar frá árinu 2011.

Áhrif gengisbreytinga á verðlag má á margan hátt líkja við fyrirhugaðar breytingar á sköttum og innflutningsgjöld þar sem um utanaðkomandi áhrif á verðlag er að ræða sem virka á sama hátt á alla aðila. Í rannsókninni sem nefnd var að framan kemur skýrt fram að styrking krónunnar hafi minni áhrif á verðlag en veiking:

Styrking krónunnar hefur í öllum tilfellum minni áhrif á verðlag en veiking hennar gerir til skamms tíma. Niðurstöðurnar staðfesta þannig þær fullyrðingar sem oft er varpað fram um að viðbrögð fyrirtækja séu ólík eftir því hvort gengi styrkist eða veikist, en eins og fram kemur í greininni er slík hegðun fyrirtækja ekki sér íslenskt fyrirbæri.“[1]

Ef þessar niðurstöður eru yfirfærðar á þær breytingar sem nú á að framkvæma á virðisaukaskattkerfinu bendir margt til þess að skattahækkanir á neðra þrepi muni skila sér mun betur út í verðlag en skattalækkanir efra þrepsins og afnám vörugjalda.

Rannsóknin metur auk þess gengisáhrif á verðlag mismunandi vöruflokka, innfluttrar matvöru, heimilistækja, raftækja og byggingarefnis. Áhrif gengisbreytinga skila sér samkvæmt því best í verðlagningu matvara. Veiking krónunnar skilar sér að fullu og styrking skilar sér að um tveimur þriðju hlutum. Verð matvöru hækkar því í fullu samræmi við gengisbreytingarnar og lækkanir skila sér að tveimur þriðju hlutum. Matvara er í neðra þrepi virðisaukaskatts sem stendur til að hækka úr 7% í 11%.

Þegar kemur að heimilistækjum skilar veiking krónunnar sér að fullu en áhrif af styrkingu eru „hverfandi“. Sama saga á við um efni til viðhalds heimilis og raftæki. Veiking krónunnar skilar sér að mjög miklu leyti en styrking krónunnar hefur „takmörkuð áhrif“ á raftæki og „engin martæk áhrif“ á byggingavörur samkvæmt rannsókninni.

Því eru sterkar vísbendingar til þess, sem oft hefur verið haldi fram að, hækkanirnar muni skila sér hratt út í verðlag en lækkanirnar að litlu leyti. Þar sem fyrrgreindar skattabreytingar virka að mjög miklu leyti á sama hátt og gengisbreytingar þá verður að segjast að þessi samanburður gefi sterkar vísbendingar um raunveruleg áhrif skattabreytinganna á verðlag. Það á sérstakleg við um þessa vöruflokka sem um ræðir.

Hækkanir á matvöru sem er að miklu leyti í 7% þrepinu skila sér fljótt og að fullu út í verðlag. Lækkanir á þeim hlutum sem bera vörugjöld skila sér illa út í verðlag.

Nefnt hefur verið að þegar neðra skattþrepið var árið 2007 lækkað úr 14% niður í 7% hafi sú breyting skilað sér að miklu leyti út í verðlag. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem að hún var á þeim vörum, matvöru, þar sem slíkar breytingar skila sér betur út í verðlag en á öðrum vörum. Verðlagning fyrrnefndra vöruflokka er mjög mismunandi og því er sú breyting ekki góð vísbending um að þær skattalækkanir sem nú á að fara í muni skila sér út í verðlag.

Nefnt hefur verið að verslanir séu farnar að lækka verð nú þegar. Það eitt og sér er ekki næg vísbending um hver áhrifin verða almennt.

Ef skattalækkanirnar skila sér ekki út í verðlag þá bresta þau markmið sem á að ná með skattabreytingunum. Komið hefur fram að vísitala neysluverðs muni lækka vegna skattabreytinganna enda er þar gert ráð fyrir að bæði hækkanir og lækkanir skili sér að fullu. Fari hins vegar svo, líkt og margt bendir til, að hækkanir skili sér að mestu en lækkanir skili sér takmarkað munu áhrifin á vísitöluna vera önnur en sú lækkun sem boðuð hefur verið.



[1] Kári Joensen.(2011). Áhrif gengis á verðlag. (bls.2) Rannsóknasetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst


 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?