Í árlegri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins þar sem fjallað er um stöðu jafnréttis kynjanna í 144 ríkjum er Ísland í fyrsta sæti, áttunda árið í röð. Þrátt fyrir það eru 83 ár í að fullu jafnrétti kynjanna verði náð hér á landi, haldi fram sem horfir í jafnréttismálum.
Í skýrslunni er árangur ríkja metinn út frá ýmsum þáttum. Ísland er í fyrsta sæti þegar mæld er þátttaka kvenna í stjórnmálum og aðgengi kvenna að menntun. Þá er Ísland ofarlega þegar kemur að atvinnuþátttöku og tækifærum á vinnumarkaði. Ísland er hins vegar vel fyrir neðan miðju þegar kemur að heilsu, í 104. sæti af 144.
11. sæti í launajafnrétti
Alþjóðaefnahagsráðið metur einnig kynbundið launamisrétti. Þar hafnar Ísland í 11. sæti af 114. Miðað við þróunina telur ráðið að óútskýrður launamunur sé 13%. Það sem rímar ágætlega við niðurstöður kannana sem gerðar hafa verið hjá SFR og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Nýjasta könnun þessara tveggja stéttarfélaga sýndi að 15-16% óútskýrður munur er á launum opinberra starfsmanna í félögunum tveimur.
Samkvæmt skýrslunni má áætla að stúlkubarn sem fæðist í dag þurfi að ná 83 ára aldri til að upplifa það að jafnrétti hafi náðst að fullu, að því er fram kemur á vef Velferðarráðuneytisins. Það er að því gefnu að þróunin í átt að jafnrétti kynjanna haldi áfram á sama hraða á komandi árum og undanfarið.
Ísland er, eins og áður segir, í fyrsta sæti listans yfir þau ríki þar sem jafnrétti er mest. Í næstu sætum á eftir eru Finnland, Noregur og Svíþjóð. Einhverjum gæti komið á óvart að Rúanda er í fimmta sæti en Danmörk vermir 19. sætið. Í neðstu fjórum sætunum eru Sádí-Arabía, Sýrland, Pakistan og að lokum Jemen í neðsta sætinu.
Þarf að uppræta launamisrétti
Jafnréttismál eru hornsteinn í stefnu BSRB. Bandalagið hefur tekið þátt í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna undanfarin ár. Það er augljóslega óásættanlegt að bíða í 83 ár eftir því að fullu jafnrétti verði náð. Í raun er óásættanlegt að misréttið sé til staðar og því verður að bregðast við strax.
Að mati BSRB er það forgangsverkefni stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar að uppræta með öllu kynbundinn launamun. Það má til dæmis gera með því að lyfta hulunni af launasetningu á vinnustöðum og gera stjórnendur ábyrga fyrir launajafnrétti, eins og fram kemur í stefnu bandalagsins.