Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um fækkun ríkisstarfsmanna og hagræðingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir að svo virðist sem sumum stjórnmálamönnum finnist það í lagi að fjalla um fækkun og uppsagnir ríkisstarfsmanna eins og hvert annað hundsbit. „Það að segja upp fólki og kasta því í atvinnuleysispyttinn er stóralvarlegt mál og á aldrei að fjalla um af léttúð.“
Í viðtali í Morgunblaðinu lætur þingmaður í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar Vigdís Hauksdóttir, sem einnig er formaður fjárlaganefndar, hafa eftir sér afar umdeild ummæli í þá veru að fyrrum vinstri stjórn hafi haldið hlífiskildi yfir ríkisstarfsmönnum, og um þá hafi gilt sérreglur sem rekja megi til þess að vinstri stjórnin hafi sótt fylgi sitt til þess hóps. „Þessi ummæli eru svo forkastanleg að þau dæma sig auðvitað sjálf. Það er fáheyrt að þingmenn láti annað eins út úr sér. Vigdís reynir þarna að gera lítið úr öllum þeim stóra hópi opinbera starfsmanna sem bera uppi velferðarkerfið og stjórnsýsluna með því að ætla þeim ákveðnar pólitískar skoðanir.“
„Það er afar slæmt þegar fordómar og þekkingarleysi stýra aðgerðum stjórnvalda með þessum hætti. Allir sjá að þetta er afar mikil einföldun og varla svaravert“, segir Árni. „Mér finnst undarleg þessi neikvæða umfjöllun um fækkun ríkisstarfsmanna nú þegar við höfum í sameiningu komist í gegnum erfiðustu ár hrunsins. Ég hefði haldið að þessari umræðu hefði átt að vera lokið. En í ljósi fyrirhugaðra sameiningaráforma langar mig hins vegar að benda Vigdísi og öðrum þingmönnum á að ein sú stærsta og best heppnaða sameining stofnana sem átt hefur sér stað undanfarin ár var þegar skattstofurnar voru sameinaðar ríkisskattstjóra. Þessi stóra framkvæmd hafði ekki í för með sér neinar uppsagnir, heldur átti fækkun starfsmanna sér stað með eðlilegum hætti. Þar var faglega og samviskusamlega staðið að málum og sameiningin framkvæmd í samráði við stéttarfélög og með hag starfsfólksins fyrir brjósti. Það er því ekkert náttúrulögmál að það þurfi að fækka starfsmönnum við sameiningar, verkefnum fækkar ekkert endilega þó reksturinn breytist. Mikilvægt er að unnið sé að sameiningum með áherslu á mannauðinn sem ber kerfið uppi. Við höfum hreinlega ekki efni á því að tapa allri þeirri þekkingu sem þar býr. Ég skora á þingmenn nefndarinnar til að kynna sér málin betur og býð þeim til fundar með okkur hjá SFR.“