Fjöldi opinberra starfsmanna hefur haldist í hendur við fjölgun þjóðarinnar undanfarin ár og er hlutfallslega svipaður nú og hann hefur verið rúman áratug samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.
Þegar fjöldi opinberra starfsmanna er skoðaður í samhengi við fjölda landsmanna hefur hlutfallið verið svipað frá árinu 2008, í kringum 13 prósent. Lítilleg hlutfallsleg fjölgun hefur verið síðustu tvö ár en hún tengist fyrst og fremst heimsfaraldrinum.
Þegar aðeins er horft til hlutfalls opinberra starfsmanna af öllum landsmönnum á vinnumarkaði hefur hlutfallið hækkað síðustu tvö ár vegna aukins atvinnuleysis á almenna vinnumarkaðinum af völdum heimsfaraldursins.
Á myndinni hér að neðan má sjá þá sem starfa í þessum greinum sem hlutfall af heildarmannfjölda á Íslandi. Breytingarnar yfir þetta tímabili eru nánast engar, það er nánast jafn margir opinberir starfsmenn að baki hverjum Íslendingi á árunum 2008 til 2020. Sú litla aukning sem sjá má í heilbrigðisþjónustu árið 2020, úr 5,3 í 5,6 prósent, skýrist fyrst og fremst af heimsfaraldrinum. Þá varð nokkur aukning í opinberri stjórnsýslu árið 2018, úr 2,0 í 2,4 prósent, en lítil breyting orðið síðan þá. Hlutfallið í fræðslustarfsemi hefur eitthvað sveiflast en hefur verið nokkuð stöðugt allt frá 2014.
Almennt er ekki að sjá að miklar breytingar hafi verið á því hve hátt hlutfall starfar innan þeirra atvinnugreina sem skilgreina má sem opinberar greinar á árunum 2008 til 2020, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Hlutfallið hækkar nokkuð árið 2009 vegna fækkunar starfa á almennum markaði í kjölfar hrunsins, en breytist svo lítið allt til 2019. Allnokkur aukning verður árið 2020, en hækkandi hlutfall það ár skýrist fyrst og fremst af fækkun starfa á almennum markaði.
Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar voru um 17 til 18 þúsund manns við vinnu í heilbrigðis- og félagsþjónustu á árunum 2008 til 2017, um 19 þúsund næstu tvö ár þar á eftir og var fjöldinn kominn í 20.600 árið 2020. Hlutfall heilbrigðis- og félagsþjónustu af heildarfjölda vinnandi er á bilinu 10,6 til 12 prósent á árunum 2008 til 2019 og fer í 12,3 prósent árið 2020. Það stafar bæði af því að eitthvað fjölgaði í hópi starfandi innan heilbrigðisþjónustunnar vegna heimsfaraldursins og því að störfum fækkaði á almennum vinnumarkaðnum vegna faraldursins og því hækkar hlutfall opinbera geirans.
Samkvæmt könnuninni var heildarfjöldi vinnandi innan opinbera geirans 41.700 árið 2008 og var kominn í um 47.000 árið 2020. Sú fjölgun er að mestu í takti við fjölgun þjóðarinnar og fjölda á vinnumarkaði, þannig að hlutfallstölur breytast lítið milli ára.
Ekki er hægt að greina upplýsingar frá árinu 2021 þar sem tölur fyrir árið, niðurbrotnar eftir atvinnugreinum, eru ekki komnar inn hjá Hagstofunni. Þó er hægt að rýna í tölur úr staðgreiðsluskrá til að fá upplýsingar um fjöldann. Þegar tölurnar eru skoðaðar eftir mánuðum má sjá að fjölgunin er ekki ýkja mikil. Hún er töluverð yfir sumarmánuðina og skýrist af sumarráðningum og átaksverkefninu Hefjum störf vegna heimsfaraldursins, en aukningin virðist gengin til baka í október.