Félagslegt heilbrigðiskerfi tryggir aðgengi

Heilbrigðisþjónusta verður brotakenndari og skilar minni árangri þegar einkarekstur breiðist út í félagslegu heilbrigðiskerfi eins og er hér á landi. Þetta er niðurstaða úttektar á rekstri heilbrigðisþjónustu í Evrópu og vestan hafs sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor við Háskóla Íslands kynnti nýverið og sagt var frá í fréttum Rúv í vikunni.

Meðal þess sem Rúnar Vilhjálmsson hefur kannað í rannsóknum sínum er afstaða Íslendinga til hvers kyns rekstrarform þeir vilja hafa á heilbrigðisþjónustunni. Mikil samstaða er meðal Íslendinga um að hið opinbera eigi fyrst og fremst að fjármagna heilbrigðisþjónustuna.

Í frétt Rúv af málinu segir að Rúnar Vilhjálmsson hafi farið yfir fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Evrópu um árangur ólíks reksturs heilbrigðisþjónustu. Niðurstöðurnar sýna að þegar mat er lagt á aðgengi að þjónustu þá koma félagsleg kerfi, eins og hér hefur verið, best út. Blönduð kerfi, eins og eru í Vestur-Evrópu, næst best en lakast er aðgengi að þjónustunni í kerfum sem eru í einkarekstri. Kostnaður er lægstur í félagslega kerfinu og lýðheilsa best. 

Frétt Rúv má sjá og lesa hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?