Færri börn fæðast eftir skerðingu á orlofi

Marktækt færri börn hafa fæðst hér á landi eftir að reglum um fæðingarorlof var breytt og hámarksgreiðslur í mánuði lækkaðar verulega segir Ólöf Garðarsdóttir, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Í kjölfar hrunsins haustið 2008 voru hámarksgreiðslur foreldra í fæðingarorlofi skertar verulega og hafa þær lítið hækkað síðan. Hámarkið lækkaði í 300 þúsund krónur, en hefur nú verið hækkað í 370 þúsund krónur á mánuði.

Margt myndi breytast með endurskoðun
Nýlegar rannsóknir sýna að feður taka nú mun minna fæðingarorlof en þeir gerðu fyrir hrun. „Fólk sér hreinlega ekki fram á að geta verið heima með börn og svo vantar að brúa bilið yfir í leikskólana,“ segir Ólöf í samtali við Morgunblaðið.

Í blaðinu kemur fram að það sem af er ári eru fæðingar um 5,5% færri en á sama tímabili í fyrra. Það virðist því vera áframhaldandi fækkun fæðinga, 2014 til 2015, sem var um 5,6%.

Ingibjörg Hanna Jónsdóttir, yfirljósmóðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri tekur undir með Ólöfu og segir í samtali við Morgunblaðið: „Ég var einmitt að kveðja tvo feður sem nefndu fæðingarorlofið, hversu skertar greiðslurnar væru. Ég myndi glöð vilja sjá endurskoðun á því, þá held ég að margt myndi breytast.“

Lítið gert með tillögur starfshóps
Starfshópur sem vann að endurskoðun laga um fæðingarorlof skilaði félagsmálaráðherra tillögum sínum síðastliðið vor. Hópurinn, sem BSRB átti fulltrúa í, lagði til að þak á greiðslur verði hækkað í 600 þúsund krónur á mánuði og að greiðslur að 300 þúsundum skerðist ekki. Þá lagði hópurinn til að orlofið verði lengt úr 9 mánuðum í 12. Lítið hefur verið gert með tillögurnar enn sem komið er.

BSRB leggur þunga áherslu á að staða foreldra í fæðingarorlofi verði bætt verulega. Eins og staðan er ná lögin ekki markmiðum sínum um að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og auka jafnrétti. Úr því þarf að bæta án frekari tafa.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?