Fá­keppni og al­manna­hags­munir

Almenningur á Íslandi hefur lengi mátt þola fákeppni og afleiðingarnar eru flestum kunnar. Hér á landi er tæpast unnt að tala um eðlilega samkeppni á mörgum grunnsviðum samfélagsins; við nefnum hér rekstur matvöruverslana, bankaþjónustu, tryggingar og eldsneytisverð.

Almenningur veit sem er að fákeppni ýtir undir hærra verðlag og að þannig hefur hún neikvæð, bein og milliliðalaus áhrif á hag og afkomu heimilanna. Í nýlegri þjóðmálakönnun Alþýðusambandsins kom fram að tæp 80% landsmanna telja eftirlit með samkeppni á íslenskum neytendamarkaði heldur eða allt of lítið.  Aðeins um 6% telja það heldur eða allt of mikið.

Þetta er sláandi niðurstaða.

 

Eftirliti haldið í fjársvelti

Viðvarandi fákeppni er skýrt dæmi um hvernig stjórnmálamenn láta hjá líða að halda uppi vörnum fyrir almannahagsmuni. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið sætt skipulögðu fjársvelti árum saman til að tryggja að stofnunin ráði ekki við það hlutverk sem henni er ætlað að gegna. Samkeppniseftirlitinu var enda þvingað upp á Íslendinga með gerð EES-sáttmálans fyrir rúmum 30 árum. Sérhagsmunaverðir í verslun og viðskiptum hafa séð til þess að halda áhrifum þess í lágmarki og þannig unnið gegn neytendavernd og almannahag.

Nýjasta birtingarmynd þess óeðlilega ástands sem einokun og fákeppni skapa hér á landi er hin fordæmalausa undanþága frá samkeppnislögum fyrir aðila í kjötiðnaði sem meirihluti stjórnmálamanna í atvinnunefnd Alþingis tryggði með því að brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins.

 

„Löndin sem við berum okkur saman við“

Þegar þeim hentar vísa íslenskir stjórnmálamenn iðulega til „landanna sem við berum okkur saman við“. Þegar sá samanburður gengur þvert á þann málstað sem viðkomandi verja þegja þeir. Við treystum okkur til að fullyrða að framganga á borð við þá sem meirihluti atvinnuveganefndar kaus, þvert á allar viðvaranir og ráðleggingar, að viðhafa í sérhagsmunagæslu sinni í „kjötmálinu“ yrði aldrei liðin, og væri raunar óhugsandi, í nágrannalöndunum.

Þau samtök launafólks sem við förum fyrir, BSRB og Alþýðusamband Íslands, telja varðstöðu um almannahagsmuni til mikilvægustu hlutverka sinna. Þetta er sú pólitík sem þessi fjölmennu samtök stunda og hún er óháð stjórnmálamönnum og flokkum þeirra.

Í aðdraganda þingkosninga hvetjum við almenning til að krefja stjórnmálamenn skýrra svara um hvort og þá hvernig þeir hyggjast styrkja samkeppniseftirlit í landinu.

Finnbjörn er forseti Alþýðusambands Íslands.
Sonja Ýr er formaður BSRB.

 

Greinin birtist á Vísi 29.11.2024


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?