Engin lög um dagvistun fyrir leikskóla

Foreldra íslenskra barna bíður oft mikil áskorun að loknu fæðingarorlofi við að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf foreldranna. Ástæðan er sú að hér á landi tryggir hið opinbera ekki að börn fái dagvistun við hæfi fyrr en börn eru komin á leikskólaaldur.

Hvergi er tilgreint í lögum að öll börn eigi rétt á dagvistun að loknu fæðingarorlofi og þá er heldur ekki kveðið á um frá hvaða aldri börnum skuli tryggt leikskólapláss. Misjafnt er frá hvaða aldri leikskólar veita börnum pláss en algengast er að það sé við tveggja ára aldur. Fæðingarorlofi lýkur hins vegar við níu mánaða aldur. Þarna er 15 mánaða bil sem foreldrar þurfa að brúa eða 18 mánuðir fyrir einstæða foreldra. Síðarnefndi hópurinn á í mestum erfiðleikum með að brúa bilið.

Samkvæmt viðhorfskönnun meðal foreldra barna í daggæslu sem Akureyrarbær gerði 2015 myndu 49% foreldra frekar kjósa að koma barni sínu á leikskóla fremur en í daggæslu hjá dagforeldri. Reykjavíkurborg framkvæmdi svipaða viðhorfskönnun síðast 2014 þar sem fram kemur að 43% foreldra í Reykjavík hefðu frekar viljað fá vistun á leikskóla fyrir barn sitt loknu fæðingarorlofi fyrir barnið sitt en hjá dagforeldri.

Engir dagforeldrar starfandi
Þá eru dæmi um sveitarfélög þar sem engir starfandi dagforeldrar eru fyrir hendi. Þá er hið opinbera ekki skyldugt til að tryggja að framboð sé á dagforeldrum í samræmi við þörf foreldra eða barna þeirra.

Þetta bil milli fæðingarorlofs og leikskóla, svo nefnt umönnunarbil, hefur verulega neikvæð áhrif á möguleika fjölskyldna til að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf. Það eru í mun frekar mæður en feður sem annast barnið á þessu tímabili. Það hefur þær afleiðingar að jafnréttismarkmið fæðingarorlofslaga um samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs er þýðingarlítið þar sem að orlofinu loknu tekur við tímabil þar sem mæður axla ábyrgðina af umönnun barnsins mun frekar en feður með lækkun starfshlutfalls, lengingu fæðingarorlofs eða kröfu um aukinn sveigjanleika vinnutíma.

Bjóða leikskóla frá 12 mánaða aldri
Starfshópur sem vann tillögur að breytingu á fæðingarorlofslögum skilaði ráðherra félagsmála tillögum sínum fyrr á árinu og átti BSRB fulltrúa í hópnum. Í skýrslu hópsins er lagt til að skipuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sem hafi það hlutverk að leita leiða til að unnt verði að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur.

Tillögur hópsins eru því að stjórnvöld móti sér heildstæða stefnu varðandi umönnun barna, frá fæðingu til leikskóla. Verkefnisstjórnin hefði það hlutverk að vinna þarfagreiningu og í kjölfarið aðgerðaráætlun sem fæli í sér til dæmis tillögur um fjármögnun svo að unnt verði að bjóða öllum börnum leikskóla við tólf mánaða aldur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?