Endurskoðunarákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB munu ekki virkjast að sinni nú þegar ljóst er að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum munu haldast óbreyttir næsta árið.
Í samningum aðildarfélaga bandalagsins er ákvæði um að heimilt sé að segja upp samningum sé samningum á almenna vinnumarkaðinum sagt upp. Nú hafa bæði Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins staðfest að það verði ekki gert heldur verði staðið við ákvæði lífskjarasamningsins.
Til að koma til móts við kröfur atvinnurekenda í tengslum við endurskoðun kjarasamninga á almenna markaðinum ákváðu stjórnvöld að grípa til ýmissa aðgerða. Ein þeirra var að lækka tímabundið tryggingagjald. Tryggingagjaldið stendur meðal annars undir kostnaði við atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlofssjóð ásamt ellilífeyri og örorkulífeyri.
BSRB varar við því að tímabundin lækkun gjaldsins verði látin hafa áhrif á atvinnuleysisbætur eða greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, eða önnur verkefni sem tryggingagjaldið stendur undir. Bandalagið ítrekar þau sjónarmið að hækka þurfi atvinnuleysisbætur og halda fast við áform um lengingu fæðingarorlofs. Þeim sjónarmiðum verður fylgt eftir í samtölum við stjórnvöld.