Drögum úr ójöfnuði

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Krafa launafólks um að allir geti lifað af á launum sínum hefur verið áberandi í umræðunni og verður í forgrunni þegar kjarasamningar þorra aðildarfélaga BSRB losna í lok mars. Sú krafa beinist ekki síður að stjórnvöldum en launagreiðendum enda til lítils að hækka laun þeirra lægst launuð ef kjarabæturnar eru hirtar aftur af fólki í gegnum skattkerfið.

Í viðræðum BSRB við stjórnvöld leggjum við höfuðáherslu á breytingar á skattkerfinu, úrbætur á húsnæðismarkaði, styttingu vinnuvikunnar, jöfnun launa milli almenna og opinbera markaðarins og launaþróunartryggingu

Skattkerfið hefur á undanförnum árum verið notað til að auka misskiptinguna í samfélaginu. Álögurnar á þá sem minnstar hafa tekjurnar hafa aukist og barnabætur og vaxtabætur setið eftir. Á sama tíma hafa tekjur þeirra tekjuhæstu aukist verulega. Með öðrum orðum, byrðunum hefur verið velt af þeim sem eru aflögufærir og yfir á lágtekju- og millitekjuhópana.

Við eigum ekki að hika við að beita skattkerfinu sem jöfnunartæki til að auka hér félagslegan stöðugleika. Við hjá BSRB viljum frekari þrepaskiptingu í tekjuskattkerfinu og að mögulegar skattalækkanir eigi að útfæra þannig að þær komi þeim tekjulægri til góða. Þá er það ekki síður mikilvægt réttlætismál að skattlagning tekna komi eins út fyrir fólk sama hvort tekjurnar heita launatekjur eða fjármagnstekjur.

Eigi launafólk að geta lifað af laununum sínum verður að grípa tafarlaust til aðgerða á húsnæðismarkaði og tryggja ódýrara og hagkvæmara húsnæði um land allt, enda fer hátt hlutfall ráðstöfunartekna launafólks í kostnað við leigu eða kaup á húsnæði. Þar þurfa stjórnvöld að horfa til uppbyggingar leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, með því að auka stofnframlög til félaga sem hafa það að langtímamarkmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með leiguhúsnæði og eru rekin án hagnaðarsjónarmiða.

Það eru miklar væntingar gerðar til stjórnvalda um að draga úr ójöfnuði og óstöðugleika í samfélaginu. Nú er komið að því að standa undir þeim væntingum.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?