BSRB hvetur nýja ríkisstjórn til að setja sér metnaðarfull markmið um framúrskarandi opinbera þjónustu í umsögn í samráðsgátt stjórnvalda vegna málsins „Verum hagsýn í ríkisrekstri“. Í umsögninni leggur BSRB áherslu á að hagræðingarkrafa í ríkisrekstri hafi í áratugi leitt til vanfjármögnunar á opinberri þjónustu og félagslegs óstöðugleika. Þess í stað þurfi að fjármagna þjónustuna með markvissri tekjuöflun og hætta viðvarandi niðurskurði sem hefur skaðað gæði þjónustu og starfsaðstæður opinberra starfsmanna.
Konur sérstaklega útsettar fyrir áhrifum hagræðingarkröfu
BSRB bendir á að niðurskurður í opinberum rekstri hafi sérstaklega neikvæð áhrif á konur, sem eru í miklum meirihluta starfsfólks á opinbera vinnumarkaðinum. Draga þurfi úr kostnaði vegna manneklu, mikillar starfsmannaveltu og veikinda, frekari hagræðing og niðurskurður auki eininungis á þann vanda. Þar að auki reiða konur sig meira á opinbera þjónustu, svo sem umönnun og heilbrigðisþjónustu. Þær eru líka háðari tekjutilfærslum úr ríkissjóði en karlar vegna þess að þær eru að jafnaði með lægri laun en þeir og lægri ævitekjur. Því er sérstaklega mikilvægt að horfa á hagræðingaráætlanir í ljósi kynjaðra áhrifa.
Vanfjármögnun eykur kosnað til lengri tíma
Að mati BSRB er ákjósanlegasta lausnin að auka tekjuöflun til að rétta af fjárhag hins opinbera. Í umsögninni er vitnað í umfjöllun fjármálaráðuneytisins á síðustu árum um kerfislægan halla á ríkissjóði vegna ófjármagnaðra skattalækkana og vanfjármögnunar á útgjöldum sem leiða af fólksfjölgun og fjölgun aldraðra . Með aukinni tekjuöflun megi tryggja öflugra velferðarkerfi og betri starfsaðstæður þeirra sem veita þjónustuna. Í umsögninni er bent á að áframhaldandi vanfjármögnun auki ekki einungis kostnað til lengri tíma heldur skapi einnig félagslegan óstöðugleika og óróa. Áframhaldandi niðurskurður feli í raun í sér óbreytta efnahagsstefnu.
Með því að setja markmið um betri þjónustu á oddinn getur stjórnkerfið lagt grunn að öflugri framtíðarsýn sem gagnast bæði almenningi í dag og þeirri kynslóð sem tekur við. BSRB er reiðubúið til að taka þátt í slíku samstarfi til að ná fram þeim umbótum sem sem nauðsynlegar eru.