Samkomulag um réttindaflutning milli sjúkrasjóða

Á dögunum undirrituðu Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ sameiginlega yfirlýsingu um útfærslu réttindaflutnings milli sjúkrasjóða. Yfirlýsingin byggir á viljayfirlýsingu sem var gerð árið 2019 með það að markmiði að tryggja flutning réttinda félagsfólks aðildarfélaga BSRB og ASÍ við breytingu á félagsaðild. Tilgangurinn er að tryggja að réttur einstaklinga til sjúkradagpeninga og dánarbóta haldist þegar flutningur verður frá aðildarfélagi ASÍ og yfir til BSRB, eða öfugt, sem annars veldur því að einstaklingurinn þarf að ávinna sér aftur réttindi hjá hinu nýja stéttarfélagi.

Samkvæmt yfirlýsingunni eru aðilar sammála um að fyrsta skrefið sé að tryggja greiðslu sjúkradagpeninga og dánarbóta en lýsa þó yfir vilja til þess að útvíkka það síðar, þegar reynslan af þessu nýja fyrirkomulagi hefur verið metin.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?