BSRB hafnar því að tímabundin heimild til að færa opinbera starfsmenn milli starfa og starfsstöðva á hættustundu með vísan til borgaralegrar skyldu þeirra verði lögfest til frambúðar.
Ákvæði sem heimilaði slíka tilfærslu var lögfest tímabundið vorið 2020 þegar heimsfaraldur COVID-19 hafði skollið á samfélaginu af fullum þunga. Heimildin var svo framlengd tímabundið vorið 2021.
BSRB gerði athugasemdir við ýmis atriði tengt þessari óvenjulegu heimild en lagði sig ekki gegn henni vegna þeirrar hættu sem samfélagið stóð frammi fyrir vegna heimsfaraldursins. Nú hafa stjórnvöld lagt fram frumvarp þar sem til stendur að lögfesta úrræðið til frambúðar. Vísað er til þess að farsóttir svipaðar og COVID-19 geti komið upp í framtíðinni og þá geti úrræðið komið að gagni komi upp annarskonar hættu- eða neyðarástand.
Í umsögn BSRB um frumvarpið kemur fram að bandalagið getur ekki fallist á að svo opin heimild, sem felur í sér því sem næst óskilyrðisbundna tilfærslu opinberra starfsmanna, verði lögfest. Eðlilegra væri að komi slíkar aðstæður upp í framtíðinni verði gerðar sambærilegar tímabundnar ráðstafanir eins og notaðar voru í heimsfaraldrinum.
Bent er á það í umsögninni að hugtakið „hættustund“ eigi við samkvæmt frumvarpinu þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og ljúki þegar hættustigi eða neyðarstigi er aflýst. Slíkt hættu- eða neyðarstig hefur nú verið í gildi samfleytt í næstum tvö ár.
BSRB telur að hér sé um að ræða of mikið inngrip inn í ráðningarsamband opinberra starfsmanna og getur því ekki stutt lögfestingu þessa ákvæðis til frambúðar.