Í dag er tilefni til að gleðjast, enda nákvæmlega 75 ár síðan BSRB var stofnað. Þegar bandalagið var stofnað, þann 14. febrúar 1942, voru aðildarfélög bandalagsins 14 talsins með um 1.550 félagsmenn. Í dag eru aðildarfélögin 25 talsins og félagsmennirnir rúmlega 21.000 talsins.
BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Bandalagið hét áður Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en heitir nú einfaldlega BSRB eftir breytingu á lögum þess.
Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi.
Bandalagið fer einnig með samningsrétt í sameiginlegum málum félaganna og öðrum málum sem því er falið hverju sinni. Bandalagið styður aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og í hagsmunagæslu félagsmanna. BSRB vinnur einnig að því að efla samstöðu aðildarfélaga og stuðla að jafnræði þeirra við veitingu þjónustu til félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að fræðslu-, upplýsinga- og menningarstarfsemi ásamt jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.
Það er ástæða til að fagna 75 ára afmælinu með því að horfa um öxl á það góða starf sem unnið hefur verið á vettvangi BSRB. Ekki síður er ástæða til að líta til þeirra fjölmörgu góðu verkefna sem framundan eru hjá þessu síunga bandalagi.