Réttindi flugfarþegar til aðstoðar og skaðabóta frá flugfélögum þegar seinkun verður á flugi eða það er fellt niður gilda líka þó seinkun eða niðurfelling er vegna verkfalls starfsmanna samkvæmt nýlegum úrskurði Samgöngustofu.
Þegar seinkun verður á flugi geta farþegar átt rétt á aðstoð og skaðabótum frá flugfélagi. Um þessi atriði gilda sérstakar evrópureglur og er um að ræða staðlaðar skaðabætur. Til þess að eiga þessi réttindi þarf farþegi að hafa verið búinn að staðfesta skráningu í flugið, mætt til innritunar á réttum tíma og ferðast til eða frá Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur farþega til aðstoðar og skaðabóta fer eftir því hversu langt flugið átti að vera og hversu mikil seinkun varð á fluginu. í flestum tilfellum þarf seinkun að hafa verið meiri en þrír klukkutímar til þess að skaðabætur komi til álita. Skaðabætur geta ýmist verið 300 evrur, 400 evrur eða 600 evrur - en það fer eftir lengd flugsins og seinkun.
Ef aðstæður eru þannig að flugfélag gat ekki gert að seinkun, það er þegar ástæður fyrir seinkun eru ekki raktar til flugfélagsins, þá koma skaðabætur ekki til álita. Í þessu sambandi má benda á aðstæður þar sem ofsaveður stöðvar flugsamgöngur eða þær liggja niðri af öðrum ástæðum og flugfélag gat ekki að því gert. Flugfélagið ber því ekki ábyrgð á tjóni farþega ef félagið, starfsmenn þess og umboðsmenn hafa viðhaft þær aðgerðir sem sanngjarnt er að ætlast til þess að félagið viðhafi.
Því hefur oft verið haldið fram að flugfélag geti ekki borið ábyrgð á því ef seinkanir verða á flugsamgöngum vegna verkfalls starfsmanna flugvallar og raunar kemur það sérstaklega fram á heimasíðu flugfélaga. Þar segir meðal annars að skaðabótaábyrgð falli niður ef óviðráðanlegar aðstæður valda því að flug verði fyrir seinkun eða sé aflýst.
Nýlega komst Samgöngustofa að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að flugfarþegar ættu rétt á stöðluðum skaðabótum vegna seinkunar sem varð vegna verkfalls hjá félögum Flugvirkjafélags Íslands. Taldi Samgöngustofa að verkfallið hefði verið tilkynnt með tilteknum fresti og flugfélaginu hefði verið í lófa lagið að gera ráðstafanir til þess að bregðast við, en það gerði félagið ekki fyrr en sama dag og verkfallið skall á. Af þeim sökum ættu farþegar rétt á skaðabótum.