Árni Stefán: Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar

Árni Stefán Jónsson, fyrsti varaformaður BSRB og formaður SFR, fjallaði í pistli á vef SFR í dag um tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Þar segir hann að eðli málsins samkvæmt snertir efni þeirra opinbera starfsmenn talsvert og líklegt má telja að þær muni hafa áhrif inn í nýhafnar kjarasamningsviðræður SFR og ríkisins. 

„Við fyrstu sýn má segja að það sé fátt nýtt í hagræðingartillögum ríkisstjórnarinnar. Þær hafa þó valdið nokkrum titringi meðal starfsmanna ríkisins,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður SFR stéttarfélags, „enda lítur út fyrir að ríkisstarfsmenn eigi hugsanlega að borga gjafmildi ríkisstjórnarinnar til handa auðmönnum, með atvinnuöryggi sínu.

Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar dylst heldur engum. Sérstakur hagræðingarhópur birtir tillögur sem er svona samansoðinn óskalisti, aðeins örfáum mánuðum eftir að ríkisstjórnin afsalaði sér margra milljarða tekjum með aðgerðum sínum í sumar. Við ríkisstarfsmenn getum ekki annað en haft það í huga við skoðun þessara tillagna.“ 

Að mati Árna má í  tillögunum helst finna upptalningu á hinum ýmsum atriðum sem á eftir að skilgreina frekar. Hvort tillögurnar séu framkvæmanlegar eða hvort markmiðum um betri þjónustu og sparnað sé náð með þeim segir hann að eigi síðan alveg eftir að koma í ljós.

„Ávinningurinn af öllu þessu er harla óljós. Það sem vekur helst athygli er að í tillögunum er orðið „sameining“ nefnt tæplega 40 sinnum án þess að því fylgi nákvæm útlistun. Það er kannski gott og vel enda er sameining stofnana flókið verkefni sem þarf góðan tíma til að framkvæma ef vel á að vera. Það vekur hins vegar efasemdir um hvort allar þessar sameiningar muni verða til góðs, enda segja þeir sem til þekkja að sameining stórra rekstrareininga kalli á mikinn á kostnað fyrstu 3-5 árin. Sameiningar eru kostnaðarsöm framkvæmd í upphafi og ekki er tryggt að þær skili sparnaði til lengri tíma, segir Árni.

„Einnig er rétt að vekja athygli á því að þrátt fyrir að allar tillögur hagræðingarhópsins myndu nú spara milljarða þá er sparnaðurinn lítill ef þær verða til þess að henda fólki út í atvinnuleysi. Við hjá SFR stéttarfélagi leggjum þó ofuráherslu á að í vinnu við allar fyrirhugaðar sameiningar verði sú hugmyndafræði sem unnið var eftir við sameiningu skattstofanna og stofnun Samgöngustofu höfð að leiðarljósi. Þar var starfsfólki ekki sagt upp, heldur áttu breytingarnar sér stað með eðlilegum hætti.“

Í tillögunum er lögð áhersla á að vinnu við jöfnun kjara og réttinda á opinberum og almennum vinnumarkaði verðið hraðað og endurskoðun laga á sviði starfsmannamála fari fram. „Hér er verið að setja grundvallarbreytingar á starfsumhverfi ríkisstarfamanna í saklaust gervi og rétt er að hafa allan varann á. Þar er þó sérstaklega tekið fram að sú vinna verði í samráði við stéttarfélög og túlkum við það þannig að um slíkar breytingar verði samið, og ekkert verði gert án samþykkis stéttarfélaganna. Fyrir þessu höfum við þegar vilyrði enda hefur þetta mál komið upp áður í umræðum á milli ríkis og stéttarfélaga á undanförnum árum,“ segir Árni.

Þá sagði hann það einnig vekja ugg að í tillögum megi sjá harðari afstöðu gagnvart réttindum fólks til bótagreiðsla og þjónustu á erfiðari tímum. Þar sé m.a. lagt til að hætt verði við lengingu fæðingarorlofs og í málaflokki atvinnuleitenda er lögð ofuráhersla að stytta þann tíma sem fólk hefur bætur á sama tíma og ríkisstjórnin boðar niðurskurð á öllum vinnumarkaðsúrræðum. „Þetta eru ekki áherslur sem við viljum sjá,“ segir Árni, „og eru langt frá öllum hugmyndum stéttarfélaganna um norrænt velferðarkerfi. En það er þó betra að þetta kemur fram í nú upphafi allsherjarkjarasamninga á vinnumarkaði. Þessi atriði munu koma þar til skoðunar og við munum standa gegn öllum réttindaskerðingum og limlestingum á velferðarkerfi landsmanna“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?